Fær milljarða fyrir byssuna

George Zimmerman.
George Zimmerman. AFP

Svo virðist sem George Zimmerman geti grætt heilmiklar fjárhæðir á því að selja byssuna sem hann notaði til þess að drepa unglingsdrenginn Trayvon Martin árið 2012 en hann setti byssuna á uppboð í gær. Fjölmargir hafa boðið í byssuna og er verðið á byssunni komið upp í rúmlega 17 milljónir Bandaríkjadali eða jafnvirði rúmlega tveggja milljarða íslenskra króna. 

Drápið á Martin vakti heimsathygli. Zimmerman sagði að um sjálfsvörn hefði verið að ræða á meðan fjölskylda drengsins sagði drápið rasískt en Martin var þeldökkur. Þá vakti það einnig athygli þegar Zimmerman var sýknaður af morðinu á Martin árið 2013.

Fyrri frétt mbl.is: Segir byssuna sögulega

Byrjunarverðið á byssunni á uppboðinu var 5.000 Bandaríkjadalir og sagði Zimmerman að um sögulegan grip væri að ræða. Svo virðist sem áhuginn á byssunni sé mikill en þúsundir hafa boðið í hana.

Zimmerman var að sinna sjálfboðaliðastarfi sem nágrannavörður í afgirtu hverfi í Flórdía þegar hann skaut drenginn. Martin var óvopnaður en Zimmerman sagðist hafa elt hann því hann grunaði Martin um að tengjast ráni í hverfinu. Þá hefur hann alltaf haldið því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða þegar hann skaut drenginn.

Síðan Zimmerman var sýknaður hefur hann reglulega ratað í fjölmiðla, til að mynda fyrir að selja málverk af Sambandsfánanum, sem margir litu á sem merki um rasisma, í samstarfi við skotvopnaverslun í Flórída. Þá var hann á síðasta ári sakaður um að hafa ráðist á kærustu sína sem dró málið þó til baka.

Í september 2014 hótaði hann manni í Flórída og árið 2013 kallaði fyrrverandi eiginkona hans eftir hjálp lögreglu eftir að Zimmerman hótaði henni með byssu. Hvorki hún né maðurinn kærðu Zimmerman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert