Sögulegt bréf rataði heim

Bréf sem Kristófer Kólumbus skrifaði árið 1493 var skilað til Ítalíu í dag eftir langt ferðalag. Í bréfinu lýsir landkönnuðurinn ferðalagi sínu til Ameríku og fannst það í bókasafni bandaríska þingsins í Washington fyrir nokkrum árum síðan.

„500 árum eftir að það var skrifað hefur bréfið komist heim sömu ferð frá Ameríku,“ sagði menningamálaráðherra Ítalíu, Dario Franceschini, við athöfn í Róm þar sem bréfið var afhent. Þakkaði hann bandarískum yfirvöldum fyrir hjálpina við að koma bréfinu til síns heima.

Kólumbus skrifaði upphaflegt bréfið til velunnara sinna,  Ferdinands Spánarkonungs og Ísabellu drottningu, ári eftir að hann lagði af stað í sína sögulegu ferð yfir Atlantshafið. Talið er að Kólumbus hafi skrifað bréfið á heimleiðinni aftur til Evrópu en það er dagsett 4. mars 1493, daginn sem hann kom til Lissabon í Portúgal. Bréfið var síðan þýtt yfir á latínu og búin til nokkur eintök sem dreifa átti um Evrópu. Var tilgangurinn sá að breiða út þekkingu um „Nýja heiminn“.

Ellefu eintök voru gerð árið 1493 og sex til viðbótar árin 1494 til 1497. Prentarinn Stephan Plannck gaf út tvær af fyrstu útgáfunum í Róm og Riccardiana bókasafnið í Flórens eignaðist eitt eintak. Því var stolið þaðan og fölsuðu bréfi komið fyrir í staðinn.

Bandarísk yfirvöld staðfestu síðan árið 2010 að fornbókasali í New York hefði keypt bréfið árið 1990. Tveimur árum síðar var það selt á uppboði en kaupandinn gaf það bókasafni þingsins. Stolna bréfinu verður komið aftur til Flórens en enginn veit hvað varð um upphaflega bréf Kólumbusar sem var á spænsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert