Vildi deyja píslardauða

Abrini er maðurinn með hattinn.
Abrini er maðurinn með hattinn. AFP

Lögregla hefur fundið „hinstu yfirlýsingu“ Mohamed Abrini, „mannsins með hattinn“, sem er grunaður um aðild að hryðjuverkaárásunum í Brussel. Abrini var handsamaður í apríl sl. og sagðist þá ekki fær um að meiða, en textinn sem lögregla hefur undir höndum bendir til þess að hann hafi viljað deyja píslardauða.

Abrini hlaut viðurnefnið „maðurinn með hattinn“ eftir að myndbandsupptökur birtust af honum og tveimur árásarmönnum á alþjóðaflugvellinum í Brussel en þar ber hann hatt á höfði.

Textinn sem um ræðir fannst á tölvu sem var fleygt í ruslatunnu, en Abrini hafði reynt að eyða textanum með því að setja hann í „ruslatunnu“ tölvunnar. Tölvan er sögð hafa fundist í Schaerbeek, hverfi þar sem skipuleggjendur árásanna í Brussel og París eru sagðir hafa haldið til.

Þegar hefur verið sagt frá því að á tölvunni hafi verið að finna yfirlýsingu Ibrahim el-Bakraoui, annars grunaðs árásarmanns, en ekki er vitað hvers vegna upplýst er um texta Abrini nú. Belgíska ríkissaksóknaraembættið hefur reyndað neitað að tjá sig um hann.

Textinn er dagsettur 2. febrúar og í honum útskýrir Abrini m.a. hvernig hann leitaði á náðir trúarinnar eftir að bróðir hans lést í sjálfsmorðssprengingu í Sýrlandi í júlí 2014. Hann ákvað í kjölfarið að ganga til liðs við Ríki íslam.

Abrini segir þá sem stóðu að hryðjuverkaárásunum í París hetjur, biður móður sína um að fyrirgefa sér og segist munu hitta hana og bróður sinn í Paradís.

Mohamed Abrini hefur setið í fangelsi í Bruges frá því í apríl og er einnig undir rannsókn í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember sl. en hann náðist á myndband á bensínstöð í Frakklandi ásamt Salah Abdeslam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert