Þrír létu lífið í eldgosi

Mynd frá eldgosi í eldfjallinu Sinabung í Indónesíu árið 2013.
Mynd frá eldgosi í eldfjallinu Sinabung í Indónesíu árið 2013. SUTANTA ADITYA

Þrír létust og fjórir slösuðust alvarlega í morgun þegar virkt eldfjall í vesturhluta Indónesíu gaus og spúði heitri ösku og gastegundum í andrúmsloftið. Frá þessu greinir AFP.

Fórnarlömbin vöru öll við búskap við Sinabung-eldfjallið á eyjunni Sumatra þegar þau lentu í heitum gasstrók, að sögn Sutopo Purwo Nugroho, upplýsingafulltrúa náttúruhamfarastofnunar landsins.

„Sjö manns lentu í heitum gasstrók þannig að þrír þeirra létu lífið og aðrir fjórir eru hættulega slasaðir,” sagði hann í yfirlýsingu og bætti við að þeir slösuðu hefðu verið fluttir á sjúkrahús.

Nokkur hús skemmdust við eldgosið en gasstrókurinn náði þrjá kílómetra í loft upp. Fórnarlömb eldgossins voru við búskap innan „rauða svæðis“ eldfjallsins, þ.e. innan fjögurra kílómetra radíuss frá eldfjallinu sem stjórnvöld hafa skilgreint sem hættusvæði.

Sutopo sagði að þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir stjórnvalda hefði fólk samt haldið áfram „af kæruleysi“ að stunda búskap á svæðinu. „Þetta svæði hefði átt að vera mannlaust, því enginn ætti að vera á rauða svæðinu,” sagði hann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gos í eldfjallsinu hefur valdið manntjóni síðan það varð virkt á nýjan leik árið 2013. 16 manns létust þegar það gaus árið 2014 og þúsundir manna hafa flúið svæðið vegna hættunnar sem stafar af eldfjallinu sem er eitt af 129 virkum eldfjöllum í Indónesíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert