Stjórnvöld munu ekki gefa eftir

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands.
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands. AFP

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, segist vera staðráðinn í að komast ekki á lista yfir þá frönsku stjórnmálamenn sem hafa gefið eftir gagnvart mótmælendum. Hávær krafa er um að frönsk stjórnvöld dragi til baka umdeildar breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni.

Verkalýðssamtökin CGT, sem eru þekkt fyrir að grípa til harkalegra aðgerða, hafa skipulagt götumótmæli og verkfallsaðgerðir sem munu meðal annars lama almenningssamgöngur í landinu til að þrýsta á um að stjórnvöld dragi breytingarnar til baka. Þau segja að ný vinnumarkaðslöggjöf muni auðvelda fyrirtækjum að ráða og reka starfsfólk.

„Ef við gefum eftir gagnvart þeim og CGT, vegna þess að við erum gagntekin til styttri tíma af forsetakosningunum 2017, þá myndum við tapa öllu,“ sagði Valls í samtali við franska dagblaðið Journal Du Dimanche í dag.

Mikill þrýstingur er á stjórnvöld að finna lausn á deilunni fyrir 10. júní, en þá hefst Evrópukeppnin í knattspyrnu. CGT hafa hótað að trufla keppnina með aðgerðum sínum.

Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, undirstrikaði afstöðu franskra stjórnvalda í blaðinu. „Við verðum fyrst og fremst að vera sterk. Önnur afstaða yrði röng með tilliti til annarra verkalýðssamtaka sem styðja flest hver frumvarpið,“ sagði hann.

Verkalýðssamtökin CFDT styðja áformin. Þau benda á að samkvæmt frumvarpinu fái verkalýðssamtök meiri völd til þess að semja einhliða við fyrirtæki, í stað þess að þurfa að komast að sameiginlegu samkomulagi við fyrirtæki með öðrum samtökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert