EM gæti verið skotmark hryðjuverka

AFP

Bandarísk yfirvöld hafa varað við því að Evrópukeppnin í knattspyrnu í Frakklandi í sumar gæti verið næsta skotmark hryðjuverkamanna.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði að sá mikli fjöldi ferðamanna, sem færi í frí til Evrópu í sumar, gæti verið skotmark hryðjuverka. Í það minnsta væri aukin hætta á slíkum árásum.

Keppnin hefst 10. júní næstkomandi og stendur til 12. júlí. Leikið verður víða um landið.

Áhyggj­ur hafa verið uppi um að hryðju­verka­árás verði fram­in á EM, í ljósi þess að mann­skæðar hryðju­verka­árás­ir voru gerðar á Par­ís í fyrra.

Búast er við því að allt að ein milljón manna ferðist til Parísar, höfuðborgar Frakklands, á meðan keppninni stendur. Þúsundir Íslendinga verða í Frakklandi að fylgjast með keppninni.

Auk þess að vara við mögulegum árásum í Frakklandi, þá benti bandaríska utanríkisráðuneytið á að hætta væri á að hryðjuverkamenn myndi láta til skarar skríða víðar í Evrópu. Árásirnar gætu til að mynda beinst að fjölförnum ferðamannastöðum, veitingastöðum, verslunarmiðstöðvum og almenningssamgöngum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert