Fyrirsæta dæmd fyrir morð

Andrew Bush og Maria Kukucova á meðan allt lék í …
Andrew Bush og Maria Kukucova á meðan allt lék í lyndi.

Slóvakísk fyrirsæta hefur nú verið dæmd í 15 ára fangelsi fyrir morðið á fyrrverandi kærasta sínum, breskum milljarðamæringi, á heimili hans á Spáni árið 2014. 

Kon­an, sem heit­ir Maria Kukucova og er 26 ára göm­ul, skaut hinn 48 ára gamla Andrew Bush tvisvar sinnum í höfuðið og einu sinni í öxlina á heim­ili hans í strand­ar­bæn­um Estepona 5. apríl 2014. Farið hafði verið fram á 20 ára fang­els­is­dóm yfir henni. 

Réttarhöld yfir konunni hafa staðið yfir í rúma viku, en þeim lauk í dag þegar kviðdómur lýsti hana seka. Í dóminum kom fram að Kukucova hafi verið afbrýðisöm eftir að Bush hætti með henni og byrjaði með yngri konu. 

Kukucova seg­ist hins vegar hafa skotið Bush „óvart“ þegar hún reyndi að kom­ast í burtu frá hon­um. „Ég vildi ekki meiða hann,“ sagði hún grát­andi fyr­ir dóm­in­um í vikunni og út­skýrði að Bush hefði haldið sér fastri og hún hafi verið að reyna að losna úr greip­um hans þegar skot­un­um var hleypt af byss­unni. 

Bush átti skart­gripa­búð í Bretlandi, þar sem Kukucova hafði starfað, áður en hann flutti til Spán­ar. Parið hætti sam­an um mánuði áður en Bush lést, en þá höfðu þau verið sam­an í yfir tvö ár. 

Kukucova seg­ist hafa verið ein í húsi Bush í tvo daga að taka sam­an eig­ur sín­ar, áður en hann kom til baka úr ferðalagi með nýrri kær­ustu sinni, hinni 20 ára gömlu Mariu Korota­eva. Þegar þau komu í húsið og sáu Kukucova þar sagði Bush nýju kær­ust­unni að fara aft­ur inn í bíl að henn­ar sögn, en fór svo sjálf­ur inn í húsið þar sem hann og Kukucova rif­ust. 

Korota­eva var lyk­il­vitni í mál­inu, en hún seg­ist hafa heyrt skot­hvell­ina frá hús­inu nokkr­um mín­út­um eft­ir að þau Bush og Kukucova fóru inn. Eft­ir það kom Kukucova hlaup­andi út og skipaði Korota­eva að fara úr bíln­um, sem hún keyrði svo burtu á. Í kjöl­farið flúði hún til Slóvakíu, en gaf sig svo fram við lög­reglu fjór­um dög­um síðar.

Frétt mbl.is: Fyrirsæta myrti kærastann „óvart“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert