Forseti Venesúela styður Sanders

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP

Nicolas Maduro, hinn umdeildi forseti Venesúela, sagðist í gærkvöldi styðja Bernie Sanders í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Ef kosningarnar yrðu „frjálsar“ yrði Sanders næsti forseti landsins.

Sósíalistinn Maduro kennir meðal annars bandarískum stjórnvöldum um bágborið efnahagsástandið í Venesúela. Hann sakar þau jafnframt um að reyna að steypa sér af valdastóli.

„Bernie Sanders, byltingarsinnaði vinur okkar, verður að sigra í Bandaríkjunum,“ sagði Maduro í sjónvarpsávarpi í gær.

„Ef kosningarnar yrðu frjálsar yrði Bernie Sanders næsti forseti Bandaríkjanna,“ bætti hann við. Sanders hefur sjálfur lýst sér sem lýðræðislega sinnuðum sósíalista. Hefur hann kallað Hugo Chavez, forvera Maduro, „dauðan kommúnistaeinræðisherra“.

Í frétt Reuters segir að samskiptin á milli ríkjanna tveggja, Bandaríkjanna og Venesúela, hafi verið stirð allt frá árinu 1999, þegar Chavez varð forseti Venesúela. Ríkin hafi til að mynda ekki skipts á sendiherrum frá 2010.

Allt bendir til þess að Hillary Clinton hljóti útnefningu Demókrataflokksins í kosningunum í nóvember.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert