Sýrlendingar fá nýjan forsætisráðherra

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, skipaði í dag Iman Khamis sem nýjan forsætisráðherra landsins. Khamis var áður rafmagnsmálaráðherra Sýrlands en hans næsta verkefni er að mynda nýja ríkisstjórn. Talið er að hann tilkynni nýja ráðherraskipan á næstu dögum.

Khamis, sem er 54 ára gamall, tekur við af Wael al-Halqi, sem hefur verið forsætisráðherra í tæp fjögur ár eða síðan í ágúst 2012.

Tveir mánuðir eru síðan Baath-flokkur Assad og bandamenn hans hlutu meirihluta þingsæta í þingkosningum í landinu. Alþjóðlegar stofnanir og stjórnmálamenn hafa gagnrýnt kosningarnar og sagt þær byggjast á svindli.

Khamis hafði verið rafmagnsmálaráðherra Sýrlands frá árinu 2011 en hann er menntaður rafmagnsverkfræðingur.

Evrópusambandið hefur sakað Khamis um að deila „ábyrgðinni á árásum stjórnarhersins gegn almennum borgurum“ síðustu ár en fimm ár eru síðan að borgarastyrjöld hófst í landinu.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert