Kveiktu í heimavistinni þegar þeir fengu ekki að sjá leikinn

Nemendurnir í Kisii misstu ekki af miklu því leikur Portúgala …
Nemendurnir í Kisii misstu ekki af miklu því leikur Portúgala og Króata var af mörgum talinn sá slakasti á EM fram að þessu. AFP

Yfirvöld í Kenía kanna nú hvort nemendur í bænum Kisii hafi kveikt í heimavist sinni vegna þess að þeim var bannað að vaka og horfa á leik Portúgala og Króata á Evrópumótinu í knattspyrnu. Sveitarstjórinn á svæðinu segir nemendurna hafa valdið milljónatjóni.

Leikurinn fór fram kl. 22 að staðartíma í Kisii á laugardagkvöld. Nokkrir nemendur byrjuðu á því að kasta steinum og hrópa slagorð um réttindi sín að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir skólastjóranum. Kvartanir höfðu einnig verið uppi um að skólinn hefði tekið upp strangari agareglur en fulltrúar hans neita því.

Nemendurnir kveiktu í sjö svefnsölum og reyndu að skemma eignir í stúlknaskóla í grenndinni. Yfirvöld hafa heitið því að höfuðpaurunum verði refsað.

Töluverðar róstur hafa verið í skólum í nágrenni Kisii undanfarið. Kveikt hefur verið í tuttugu skólum á undanförnum sex mánuðum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert