Kjósa um flóttamenn í október

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Ungverjar ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu 2. október vegna áforma Evrópusambandsins um að koma farandfólki og flóttamönnum fyrir í löndum sambandsins.

Forsætisráðherra Ungverja, hægrimaðurinn Viktor Orban, hefur mótmælt þessu harðlega og greiddi ríkisstjórn landsins atkvæði gegn áformunum.

Til stendur að koma 160 þúsund manns fyrir víðsvegar um Evrópu, samkvæmt samkomulagi meirihluta aðildarríkja ESB frá því í september.

Stjórnvöld í Slóvakíu ætla einnig að láta reyna á lögmæti áformanna.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni verða ungverskir kjósendur spurðir: „Vilt þú að ESB komi þeim sem eru ekki ungverskir ríkisborgarar fyrir í Ungverjalandi án samþykkis ungversku ríkisstjórnarinnar?“

Um 400 þúsund flóttamenn, ásamt farandfólki, fóru í gegnum Ungverjaland í fyrra, eða þangað til stjórnvöld lokuðu landamærunum í suðri með gaddavírsgirðingum síðasta haust.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert