Hákarlar hræða íbúa frá briminu

Brimbrettakappinn Garry Meredith hefur ekki stigið á brettið í eitt ár; allt frá því að hann hljóp út í brimið til að hjálpa manni sem hafði orðið fyrir hákarlaárás. Matt Lee var dreginn á land með fossblæðandi sár á fætinum eftir árás fjögurra metra hvítháfs en lifði. Meredith man atvikið greinilega og hvernig hann aðstoðaði bráðaliða við að stöðva blæðinguna á Lighthouse Beach í bænum Ballina.

Strandmenning er sterk í bænum en hákarlar sjást æ oftar á svæðinu og árásum hefur fjölgað. Íbúum stendur orðið ekki á sama.

„Eftir þessa lífsreynslu lét ég af brimbrettareiðum,“ sagði Meredith í samtali við AFP. „Ég sný aftur að lokum en ég er ekki reiðubúinn.“ Atvikið átti sér stað aðeins fimm mánuðum eftir aðra árás þar sem fórnarlambið lést. Þá var Meredith, sem starfar við strandvörslu, einnig á vakt.

Garry Meredith athugar móttakara sem skynjar nálæga hákarla sem hafa …
Garry Meredith athugar móttakara sem skynjar nálæga hákarla sem hafa verið merktir. AFP

Fjórtán einstaklingar urðu fyrir árásum hákarla undan ströndum New South Wales árið 2015, en árið áður voru árásirnar þrjár. Flestar áttu sér stað á 60 km svæði frá Evans Head að Byron Bay en Ballina er þar á milli.

Bærinn hefur verið vinsæll meðal brimbrettafólks en nú eru menn uggandi.

„Sumir vilja ekki fara aftur í vatnið eða eru ekki tilbúnir til að fara aftur í vatnið. Ég held að þeir séu nógu hræddir til að taka þá ákvörðun,“ segir Meredith. „En svo ertu með þessa einörðu gæja sem þurfa að komast í brimið á hverjum degi, svo þeir taka áhættuna.“

Grisjun „fornsöguleg“

Í fyrra lést japanski brimbrettamaðurinn Tadashi Nakahara eftir að hvítháfur beit fæturna af honum við Shelly Beach í Ballina. Um var að ræða eina dauðsfallið í 22 árásum við strendur Ástralíu.

Hvítháfurinn er vernduð tegund en árásirnar hafa orðið til þess að kallað hefur verið eftir grisjun (e. culling). David Wright, bæjarstjóri Ballina, má hins vegar ekki heyra á það minnst.

„Ég tel að grisjun í hvaða stofni sem er sé í grunninn forsöguleg aðferð til að takast á við vandann. Þú drepur ekki eitthvað bara af því að þér lyndir ekki við það.“

Meredith hefur ekki hætt sér á brimbretti í ár, eftir …
Meredith hefur ekki hætt sér á brimbretti í ár, eftir að hafa komið að björgun manns sem varð fyrir hákarlaárás. AFP

Menn eru raunar langt frá því sáttir um til hvaða ráða er best að grípa og staðaryfirvöld við strendur Ástralíu hafa reynt ólík úrræði. Í Queensland hafa menn komið fyrir krókum á línum sem strengdar eru milli fljótandi tunna í þeim tilgangi að fanga skepnurnar. Sumir hákarlar eru losaðir og þeim sleppt annars staðar en flestir deyja á krókunum. Fylkið notast einnig við net, en hákarlarnir flækjast í þeim og drukkna.

Verndunarsinnar hafa gagnrýnt báðar aðferðir og bent á að úrræðin verði einnig til þess að önnur dýr drepist.

Í vesturhluta Ástralíu beita menn m.a. eftirliti úr lofti og áskilja sér rétt til að drepa hvern þann hákarl sem ógn stafar af.

Shelly Beach í Ballina, þar sem Tadashi Nakahara lést eftir …
Shelly Beach í Ballina, þar sem Tadashi Nakahara lést eftir að hákarl beit af honum fæturna. AFP

„Náin kynni“

Á síðasta ári voru tilkynntar 98 hákarlaárásir í öllum heiminum, en um er að ræða mesta fjölda árása frá því skráningar hófust. Af sex dauðsföllum áttu tvö sér stað við frönsku eyjuna La Reunion.

George Burgess, framkvæmdastjóri International Shark Attack File við University of Florida, sagði í samtali við AFP í febrúar sl. að fjölgun árása mætti e.t.v. rekja til hækkandi hitastigs sjávar af völdum loftslagsbreytinga, sem hefur breytt göngu hákarlanna. Þá sagði hann hugsanlegt að aukninguna mætti einfaldlega rekja til fjölgunar strandgesta.

Sjávarvistfræðingurinn Rob Harcourt við Macquarie University segir hins vegar ómögulegt að skera úr um orsökina fyrr en upplýsingar liggja fyrir fyrir lengra tímabil.

Í Ballina halda strandverðir, veiðimenn og brimbrettakappar því staðfastlega fram að hákörlum á svæðinu hafi fjölgað og þeir haldi sig nær ströndinni en áður. Að sögn Merediths hafa eftirlitssveitir komið auga á stórar skepnur, allt að þriggja metra langar, við Boulder Beach.

Hann segir að í sumum tilfellum hafi háfarnir verið aðeins um tíu metra frá ströndinni og fólki sé sagt að þeir séu að leita að æti.

Dave Pearson varð fyrir árás 3 metra nautháfs við Crowdy …
Dave Pearson varð fyrir árás 3 metra nautháfs við Crowdy Head, skammt frá Ballina. AFP

Dave Pearson, stofnandi stuðningshópsins Bite Club, var bitinn af þriggja metra nautháf við Crowdy Head í New South Wales árið 2011. Vinstri handleggurinn rifnaði af niður að beini og hann hlaut höfuðkúpubrot.

„Þetta tekur engan enda; hvorki fyrir félaga mína, fjölskylduna né bæinn,“ segir hann. Pearson segir að leggja eigi áherslu á að veita samfélaginu stuðning í kjölfar árása.

Pearson ber húðflúr til minningar um árásina.
Pearson ber húðflúr til minningar um árásina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert