„Rasískt“ að segja svört líf skipta máli

Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York.
Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York. AFP

Fyrrverandi borgarstjóri New York, repúblikaninn Rudy Giuliani hefur vakið reiði margra vegna ummæla hans um að það sé í eðli sínu rasískt að segja að „svört líf skipti máli“. Svörtum börnum stafi meiri hætta af öðrum svörtum börnum en lögreglunni.

„Svört líf skipta máli“ hefur verið yfirskrift hreyfingar í Bandaríkjunum sem hefur andæft lögregluofbeldi gegn blökkumönnum undanfarin misseri. Íhaldsmenn hafa fundið hreyfingunni flest til foráttu og sakað hana um að vera andsnúna lögreglumönnum.

Giuliani gekk þó enn lengra í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina í gær.

„Svört líf skipta máli. Hvít líf skipta máli. Asísk líf skipta máli. Rómönsk líf skipta máli. Þetta er andbandarískt og rasískt,“ sagði borgarstjórinn fyrrverandi sem sóttist eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana árið 2008.

Þá bætti hann við að í 99 skiptum af 100 væru það svört börn sem dræpu önnur svört börn, ekki lögreglumenn.

„Þannig munu þau deyja,“ sagði Giuliani.

Presturinn Al Sharpton og einn helsti baráttumaður fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum sagði ummæli Giuliani bera vitni um skelfilegan skort á skilningi á málefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert