Skammbyssa í verðlaun á heimsleikunum

Katrín Tanja sigraði í kvennaflokki á síðustu heimsleikum. Nú gæti …
Katrín Tanja sigraði í kvennaflokki á síðustu heimsleikum. Nú gæti hún unnið Glock-skammbyssu. Ljósmynd/Milisa Smith

Ákvörðun skipuleggjenda heimsleikanna í crossfit um að verðlauna keppendur á leikunum með skotvopni hefur vakið mikla gagnrýni. Í síðustu viku birtist tilkynning á Facebook-síðu leikanna, þar sem haft var eftir Dave Castro, forstöðumanni þeirra, að sigurvegurum í karla- og kvennaflokki, auk allra liðsmanna sigurliðsins í liðakeppninni, verði gefin Glock-skammbyssa, en leikarnir hefjast í Los Angeles í þessari viku og er hópur Íslendinga á meðal keppenda.

Bandaríski miðillinn USA Today greinir frá því að aðalstyrktaraðili leikanna, íþróttavöruframleiðandinn Reebok, gagnrýni ákvörðunina í tilkynningu sem send var á miðilinn. Í henni segir að sem aðalstyrktaraðili leikanna geti Reebok því miður ekki haft áhrif á framlög annarra styrktaraðila. „Við skiljum að crossfit sækir undirstöður sínar í herþjálfun, en við erum ósammála þessari ákvörðun, sér í lagi í ljósi nýlegra atburða í Bandaríkjunum,“ segir í tilkynningunni og er þar vísað til fjölda skotárása sem átt hafa sér stað vestanhafs undanfarið.

Undirskriftasöfnun hefur verið sett af stað, þar sem skorað er á keppnishaldara að hætta við byssugjöfina og þegar þetta er skrifað hafa tæplega 21.000 manns skrifað undir. Ástralinn Daniel Bartels, sem stendur fyrir söfnuninni, segir að mótshaldarar myndu ekki fara í samstarf með skyndibitakeðjum eða áfengis- eða tóbaksframleiðendum, en byssuframleiðandi sé talinn góður samstarfsaðili. „Crossfit er fyrir heilsu og líkamsrækt og vellíðan fólks í öllum samfélögum. Þetta er ekki crossfit. Þetta ætti aldrei að vera crossfit.“

Í tölvupósti til USA Today sagði Dave Castro að ekki stæði til að draga ákvörðunina til baka. „Ekki nema ríkis- eða alríkislög um skotvopn í Kaliforníu eða Bandaríkjunum breytist í næstu viku, þá nei, mun ekkert breytast.“

Miðillinn bendir á í frétt sinni að þótt lög í Bandaríkjunum heimili verðlaunin, taki keppendur frá ýmsum löndum þátt á leikunum. Fari svo að Katrín Tanja Davíðsdóttir verji titil sinn og sigri í keppninni, geti hún ekki tekið verðlaunabyssuna með sér til Íslands.

Auk byssunnar fá sigurvegarar í karla- og kvennaflokki 275.000 Bandaríkjadali, rúmlega 33 milljónir króna, í verðlaunafé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert