Óskar þess eins að ganga í skóla

Mariam Khatib er fimmtán ára sýrlensk stúlka sem flúði til Líbanons. Hún á sér aðeins eina ósk sem er að geta gengið í skóla á nýjan leik.

„Fólk er ekkert án menntunar,“ segir Mariam. Hún hefur ekki komið inn í skólastofu frá því að hún flúði ásamt fjölskyldu sinni frá heimalandinu fyrir rúmlega þremur árum.

„Ég vildi að guð myndi uppfylla eina ósk mína og systkina minna, að hann opni dyr svo við komumst aftur í skóla.“

Mariam er meðal um 250 þúsund sýrlenskra flóttabarna í Líbanon sem ganga ekki í skóla samkvæmt nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch (HRW).

„Sá mikli fjöldi flóttabarna sem ekki ganga í skóla er neyðarástand sem aðkallandi er að leysa,“ segir í skýrslu samtakanna. „Sum þessara barna hafa aldrei stigið fæti inn í kennslustofu.“

Vandamálið er sérstaklega mikið meðal barna á aldrinum 15-18 ára en aðeins 3% flóttabarna á þeim aldri eru skráð í almenningsskólana í Líbanon. 

Líbönsk stjórnvöld hafa í samstarfi við alþjóðleg samtök lagt áherslu á að opna dyr almenningsskólanna fyrir flóttabörnunum. Ein milljón sýrlenskra barna er í Líbanon. Þau fyrstu komu þangað er stríðið braust út árið 2011, fyrir rúmum fimm árum. 

Í austurhluta Bekaa-dalsins í Líbanon eru óformlegar flóttamannabyggðir sem eru fullar af börnum sem fá enga menntun. „Ég get ekki lýst því hversu erfitt þetta er. Þetta er mjög erfitt,“ segir Ismael, bróðir Miriam. Hann er átján ára gamall og hefur ekki gengið í skóla í mörg ár. „Ég þrái að fara aftur í skóla. Ég sakna vina minna og kennaranna.“

Faðir barnanna, Imad al-Din, segir að hann hafi einfaldlega ekki efni á að senda börnin sín í skóla. „Við höfum verið í Líbanon í þrjú og hálft ár og ekkert barna minna hefur farið í skóla hér,“ segir hann. „Fjárhagsstaða okkar leyfir okkur það ekki og hingað til hef ég ekki fengið neina hjálp til að láta verða af skólagöngunni. Mér og eiginkonu minni líður hræðilega að geta ekki sent börnin í skóla. Ég óttast mjög um framtíð þeirra þar sem þau hafa enga menntun.“

Margir sýrlenskir flóttamenn í Líbanon segja að skólagjöld komi í veg fyrir að þeir skrái börnin sín í skóla. Líbönsk stjórnvöld hafa þó þá stefnu að slík gjöld séu felld niður á grunnskólastigi. 

Þetta er það sem Human Rights Watch segja helsta vandamálið: Ekki sé alls staðar staðið við þá stefnu líbanskra stjórnvalda að hleypa flóttamannabörnum í skólana. 

Stefna stjórnvalda er sú að börnin eigi að geta gengið í almenningsskólana þó þeir geti ekki sýnt fram á fasta búsetu í  landinu og þurfi ekki að borga gjöld. 

En flóttamennirnir segja þetta ekki alltaf svona. Þeir segja að skólastjórnendur krefjist pappíra og stundum skólagjalda. 

 Þá getur oft verið tímafrekt og dýrt að koma börnunum frá flóttamannabyggðunum í skólana. Börnin verða einnig fyrir áreiti í skólunum og aðstæður þar eru slæmar. Kennarar eru ekki nógu góðir og þrátt fyrir eftirspurn banna líbönsk stjórnvöld sýrlenskum kennurum að vinna í landinu.

Abdulkarim al-Salem býr í Qab Elias-flóttamannabyggðinni í Bekaa-dalnum. Hann segir að Líbanar ættu að opna skóla fyrir börnin innan byggðarinnar.

„Í minni byggð eru 180 börn sem ekki ganga í skóla því það eru engir skólar hér sem taka við þessum fjölda,“ segir hann. „Jafnvel þótt þau gætu gengið í almenningsskólann í landinu er hann langt í burtu og leiðin þangað er meðfram þjóðveginum og hættuleg.“

Human Rights Watch hvetur stjórnvöld í Líbanon til að fylgja eftir stefnu sinni en einnig að breyta henni m.a. á þann veg að leyfa sýrlenskum kennurum að kenna í skólunum. Þá vilja þau að Sýrlendingar þurfi ekki að greiða fyrir að endurnýja dvalarleyfi sín í landinu. 

Mannréttindasamtökin hvetja einnig styrktaraðila til að gefa fé til að stækka skólana, bæta þá og til að ráða fleiri og betri kennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert