„Styður við vinnu Ríkis íslams“

Trump hefur meðal annars sagt að enn geti komið í …
Trump hefur meðal annars sagt að enn geti komið í ljós að skotárás unglingsdrengs í München eigi sér rót í íslam, þrátt fyrir að þýsk yfirvöld hafi hafnað öllum tengingum við öfgahópa. AFP

Barack Obama hefur fordæmt orð Donald Trump um að Bandaríkin myndu hugsanlega ekki verja aðildarlönd Atlantshafsbandalagsins, verði hann kjörinn forseti. Obama segir orð Trump sýna skort hans á grunni í utanríkismálum og þá sérstaklega varðandi „mikilvægasta bandalag í sögu heimsins.“

Í viðtali við Face the Nation, viðtalsþátt á CBS sem sendur var út í dag, sagði Obama einnig að þau orð sem Trump hefði haft um múslima og innflytjendur væru „þegar öllu er á botninn hvolft að styðja við vinnu Ríkis íslams.“

Ummælin lét Trump falla í viðtali við New York Times í vikunni áður en hann var staðfestur sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins á landsþingi í Cleveland. Hann gagnrýndi fyrirkomulag fjárframlaga aðildarríkjanna og nefndi sem dæmi að hann myndi ekki endilega verja Eystrasaltsríkin ef þau yrðu fyrir árás Rússlands.

„Ef þeir uppfylla skyldur sínar við okkur er svarið já,“ sagði hann.

Obama sagði stóran mun á því að veita evrópskum bandamönnum Bandaríkjanna aðhald og hvatningu í útgjöldum til varnarmála, sérstaklega á tímum þar sem Rússland hefur verið ágengara, og því að segja við þá: „Vitið þið hvað? Við stöndum kannski ekki við grunnskilyrði mikilvægasta bandalags í sögu heimsins.“

Áður hafði öldungadeildarþingmaðurinn Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana á þinginu, kallað orð Trump „byrjendamistök“. Í viðtali við Meet the Press á NBC stóð Trump þó við orð sín og sagði McConnel hafa „100 prósent rangt fyrir sér.“

„Satt að segja er það sorglegt. Við erum með NATO og við erum með mörg lönd sem eru ekki að borga það sem þau eiga að borga, sem er of lítið fyrir, og þau borga samt ekki. Og við erum að gefa þeim ókeypis far eða gefa þeim far þar sem þau skulda okkur gríðarlegar upphæðir peninga. Og þeir eiga peninginn. En þeir eru ekki að borga.“

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Þjóðinni verði ekki sundrað

Hugmyndir Trump um múslima og innflytjendur snúa að gríðarlegri takmörkun komu fólks frá ákveðnum löndum og af ákveðnum trúarbrögðum til Bandaríkjanna sem og því að fylgst verði með múslimum í landinu sérstaklega.

Þessum hugmyndum hafnaði Obama alfarið í viðtalinu við CBS og sagði að með slíkum viðbrögðum myndu Bandaríkjamenn svíkja „einmitt það sem gerir Bandaríkin framúrskarandi.“

Sagði hann Bandaríkjamenn sem aðhyllast íslam hafna ofbeldi og þeim öfgum sem samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki standa fyrir á veraldarvefnum og í Mið-Austurlöndum. Leiðtogar í stjórnmálum, trúarbrögðum, viðskiptum og allir aðrir þurfi hins vegar að senda skýr skilaboð um að þjóðinni verði ekki sundrað með þeim hætti.

„Og ég held að þess konar orðræða, sem við höfum heyrt allt of oft frá herra Trump og öðrum, sé þegar öllu er á botninn hvolft að styðja við vinnu Ríkis íslams.“

Í viðtalinu við NBC stóð Trump ekki aðeins við orð sín um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna heldur gaf einnig í skyn að hann gæti látið bannið ná til landa sem orðið hafa fyrir hryðjuverkaárásum. 

Í viðtali sínu sagði Obama að sem forseti „þarf manni raunverulega að vera annt um almenning í Bandaríkjunum,“ því annars „verður manni skellt og skotið fram og til baka af skoðanakönnunum og þrýstihópum og röddum sem hvísla í höfðinu á manni.“

„Maður missir þyngdarpunktinn. Maður missir siðferðisleg takmörk sín.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert