Yngstu fórnarlömbin 12 ára

Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir árásina. Mynd úr …
Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir árásina. Mynd úr safni. AFP

Að minnsta kosti tveir létu lífið og 16 særðust þegar skothríð braust út á bílastæði við næturklúbb í Fort Meyers í Flórídaríki Bandaríkjanna í nótt. Skotárásin hófst um klukkan hálfeitt eftir miðnætti að staðartíma, þegar foreldrar voru að sækja börn sín á klúbbinn Club Blu, en þar hafði verið haldið sérstakt unglingakvöld.

Yngstu fórnarlömbin eru aðeins tólf ára að sögn lögreglu.

Á facebooksíðu Club Blu voru birt skilaboð þar sem árásin er hörmuð. „Við reyndum að veita unglingunum það sem við héldum að væri öruggur staður til að skemmta sér.“ Í færslunni kemur jafnframt fram að vopnaðir einstaklingar hafi sinnt öryggisgæslu á klúbbnum en viðburðurinn í gærkvöldi var ætlaður krökkum á aldrinum 12 til 17 ára. Þar segir jafnframt að árásarmaðurinn hafi ekki verið inni á staðnum um kvöldið.

Þegar lögregla kom á staðinn voru þar fjölmargir sem höfðu verið skotnir, sumir í lífshættu. 16 voru fluttir á sjúkrahús og lést einn þar. Þá var einn látinn á staðnum þegar lögreglu bar að garði og tveir eru á gjörgæslu.

Fórnarlömbin eru á aldrinum 12 til 27 ára samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu. Eina sem er vitað um þá látnu er að þeir voru báðir karlkyns.

Svo virðist sem árásin við klúbbinn tengist annarri skotárás skammt frá þar sem einn særðist lítillega. Alls hafa þrír verið handteknir í tengslum við árásirnar.

Fyrri frétt mbl.is: Skotárás í næturklúbbi í Flórída

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert