Loftárás gerð á fæðingasjúkrahús

Við sjúkrahúsið í Idlib í dag.
Við sjúkrahúsið í Idlib í dag. AFP

Í það minnsta tveir eru látnir og þrír særðir eftir loftárás á fæðingasjúkrahús í héraðinu Idlib í norðvesturhluta Sýrlands. 

Þeir sem létust voru ættingjar sjúklinga, hefur BBC eftir hjálparsamtökunum Syria Relief, sem reka sjúkrahúsið. Barnaheill (e. Save the Children), sem styrkja sjúkrahúsið, segja sprenginguna hafa fallið við inngang þess.

Óljóst er hverjir bera ábyrgð á sprengingunni, en samkvæmt Barnaheilum er það stærsta sjúkrahús svæðisins og koma um 300 börn í heiminn þar í hverjum mánuði.

Rússar segja leiðir frá Aleppo

Í gær tilkynntu Rússar að fjórar útgönguleiðir frá Aleppo væru að opnast, en um 300.000 manns eru í sjálfheldu í borginni. Þrjár leiðanna eru sagðar fyrir almenna borgara og óvopnaða uppreisnarmenn, en sú fjórða fyrir vopnaða.

Varnarmálaráðherra Rússa, Sergei Shoigu, segir sjúkraskýli og matvæladreifingu verða á útgönguleiðunum þremur sem ætlaðar eru óbreyttum borgurum og óvopnuðum.

Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar hafa fagnað þessum upplýsingum með trega. John Kerry, utanríkisráðherra Bandarikjanna, segir að ef opnunin reynist einhvers konar kænskubragð Rússa gæti það bundið enda á samstarf Rússa og Bandaríkjanna í Sýrlandi.

Erindreki Sameinuðu þjóðanna, Staffan de Misture, hefur óskað eftir frekari upplýsingum um þessar leiðir. Hann ítrekaði fyrri óskir Sameinuðu þjóðanna um 48 tíma vopnahlé, svo hægt sé að koma vistum til Aleppo, en talið er að matarbirgðir í borginni verði uppurnar um miðjan næsta mánuð.

De Misture sagði Sameinuðu þjóðrnar vera hlynntar leiðum líkt og þeim er Rússar segja væntanlegar, séu kringumstæður réttar, en Rússar verði að gefa út frekari upplýsingar um hvernig þær virki.

„Hvernig geturðu búist við því að fólk vilji fara útgönguleiðir, þúsundum saman, þegar sprengjum rignir á svæðinu?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert