Hafa ekki ráð á dömubindum

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skólastúlkur á Nýja-Sjálandi hafa verið að skrópa í skólanum af því að þær hafa ekki ráð á að kaupa dömubindi og neyðast til að nota tuskur eða dagblöð þeirra í stað. Á síðustu þremur mánuðum dreifðu góðgerðarsamtökin KidsCan 4.000 dömubindum til 500 skóla, eftir að þau fengu styrk til verkefnsins frá ríkinu.

Þar sem KidsCan kaupa dömubindin í miklu magni fá þau dömubindapakkann á 1 nýsjálenskan dal í stað 4-8 dala. Vörur á borð við dömubindi og túrtappa eru skattlagðar á Nýja-Sjálandi.

Að sögn Vaughans Couillaults, skólastjóra Papatoetoe-menntaskólans í suðurhluta Auckland, er það áhyggjuefni hversu margir af 700 kvenkyns nemendum skólans, sem koma frá efnaminni fjölskyldum, hafa ekki aðgang að hreinlætisvörum þegar þær fara á blæðingar.

KidsCan hófu að sjá skólanum fyrir dömubindum á þessu ári, en fyrir þann tíma fór starfsfólk skólans reglulega út í matvöruverslun og keypti bindi en stúlkurnar voru svo rukkaðar um 50 sent til að fá upp í kostnað. Að sögn Couillaults hafa kennarar við aðra skóla keypt dömubindi fyrir nemendur sína á eigin kostnað.

Sarah Kull, hjúkrunarfræðingur við Papatoetoe, segir að eftir að 50 senta gjaldið var lagt niður leiti 10-15 stúlkur til hennar dags daglega af því þær vantar hreinlætisvörur. Sumar vantar eitthvað í eitt skipti, en aðrar vantar fyrir allt tímabilið sem þær eru á blæðingum. Hún telur fjöldann sem raunverulega skortir ráð til að kaupa hreinlætisvörur mun meiri, en stúlkurnar upplifi það sem skömm að leita aðstoðar.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert