Senda hermenn til Suður-Súdans

Milljónir manna hafa flúið átökin í Suður-Súdan á undanförnum árum.
Milljónir manna hafa flúið átökin í Suður-Súdan á undanförnum árum. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi að senda fjögur þúsund hermenn til Juba, höfuðborgar Suður-Súdans. Stjórnvöld í landinu hafa lagst gegn áformunum.

Tólf þúsund friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna eru þegar í landinu.

Í ályktun öryggisráðsins segir að ef stjórnvöld í Suður-Súdan komi í veg fyrir að herliðið komist til landsins, þá verði bann lagt við vopnasölu í landinu.

Til mikilla átaka kom á milli ríkjandi afla í Suður-Súdan í júlímánuði, tæpu ári eftir að skrifað var undir friðarsamkomulag, en talið er að hundruð manna hafi látið lífið í átökunum.

Friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna hefur mistekist að tryggja öryggi almennra borgara, en yfir 35 þúsund manns hafa flúið til bækistöðva þeirra í Juba.

Yfir hundrað þúsund manns hafa jafnframt flúið frá landinu og til nágrannaríkja á undanförnum vikum, að sögn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Markmið herliðsins verður að tryggja öryggi almennra borgara í Suður-Súdan og eins verja bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna í Juba.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert