Vill seinka kosningum í Kongó

Joseph Kabila ásamt utanríkisráðherra Rúanda,Louise Mushikiwabo.
Joseph Kabila ásamt utanríkisráðherra Rúanda,Louise Mushikiwabo. AFP

Kjörskrá verður ekki klár í Lýðveldinu Kongó fyrir tilsettan tíma en forsetakosningar eru fyrirhugaðar í nóvember á þessu ári. Formaður kjörstjórnarinnar sem fer með yfirumsjón kosninganna leggur til að kosningum verði frestað.

Haft er eftir Corneille Nangaa, formanni kjörstjórnarinnar, að kjörskráin verði ekki klár fyrr en í júlí á næsta ári vegna skipulagslegra vandamála við skráningu á yfir 30 milljónum kjósenda, sem m.a. má rekja til fjárskorts. Vinna við gerð kjörskrárinnar hófst í lok júlí á þessu ári.

Stjórnarandstaðan hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því að Joseph Kabila, forseti landsins, ætli að seinka kosningunum til að sitja lengur í valdastóli en umboð hans segir til um, en því lýkur í desember.

Kabila hefur verið við völd í landinu síðan 2001 en hann má ekki bjóða sig fram í þriðja sinn vegna ákvæðis í stjórnarskrá landsins. Stjórnlagadómstóll úrskurðaði í maí um að Kabila yrði við völd þar til nýr leiðtogi tæki við.

New York Times greinir frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert