Lögreglan fái að bera hælisleitendur út

AFP

Útlendingastofnun Svíþjóðar, Migrationsverket, fær heimild til þess að óska eftir því að lögregla beri hælisleitendur út sem hafa fengið synjun um hæli í landinu ef breytingar á útlendingalögum ná fram að ganga. Um er að ræða stjórnarfrumvarp sem stefnt er að því að leggja fram.

Breytingar voru gerðar á lögum um hælisleitendur í Svíþjóð 1. júní. Meðal breytinga er að ef hælisleitendur fá synjun um hæli og um lokaúrskurð er að ræða þá eiga þeir ekki rétt á dagpeningum eða gistirými á vegum hins opinbera. Þetta á við um fullorðna hælisleitendur sem ekki eru með börn á sínu framfæri.

Útlendingastofnun vill með þessu tryggja að þeir sem ekki eiga lengur rétt á að dveljast í landinu verði bornir út úr húsnæði sem þeir hafa fengið á vegum yfirvalda og aðrir hælisleitendur geti flutt þangað inn.

Í dag er það þannig að stofnun á vegum ríkisins, Kronofogden, annast útburð hælisleitenda líkt og þeirra sem er verið að bera út vegna nauðungarsölu eða annarra skulda. 

Helena Cho Györkim, upplýsingafulltrúi Migrationverket, segir að um 2.500 manns hafi fengið þann úrskurð að hælisbeiðni þeirra hafi verið synjað og þeir því misst rétt á aðstoð. Vitað er að um eitt þúsund þeirra hafi þegar yfirgefið dvalarstað sinn en 800 dvelji þar enn þrátt fyrir að hafa ekki rétt á því. Þegar hafi verið óskað eftir aðstoð frá Kronofogden við að bera um helming þeirra út.

Frétt The Local

Talsverðar breytingar voru gerðar á útlendingalögunum í Svíþjóð í sumar en meðal breytinga er að fylgdarlaus börn sem fá hæli í Svíþjóð geta ekki fengið fjölskyldu sína til sín. Í síðustu viku var átta ára gömlu barni, sem hefur fengið hæli í Svíþjóð, synjað um heimild til þess að fá fjölskyldu sína til Svíþjóðar. Lögmaður barnsins segir að þetta sé jafnvel brot á mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um rétt barna til þess að vera með fjölskyldu sinni.

Frétt EUObserver

Upplýsingar um nýju lögin

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert