Vantrauststillaga samþykkt í Líbíu

Hermenn hliðhollir líbýsku ríkisstjórninni berjast gegn liðsmönnum Ríkis íslams í …
Hermenn hliðhollir líbýsku ríkisstjórninni berjast gegn liðsmönnum Ríkis íslams í borginni Sirte. AFP

Þjóðarþingið í Líbíu hefur samþykkt vantrauststillögu gegn ríkisstjórn landsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa stutt við bakið á ríkisstjórninni í von um að binda enda á vandræðaganginn sem hefur ríkt í stjórnarfari landsins.  

„Meirihluti þingmannanna sem voru viðstaddir samþykkti vantrauststillöguna,“ sagði Adam Boussakhra, talsmaður þingsins.

101 þingmaður tók þátt í atkvæðagreiðslunni. Þar af samþykkti 61 þeirra vantraustið og 39 sátu hjá. Aðeins einn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Sameinuðu þjóðirnar tóku þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar í desember síðastliðnum. Henni hefur ekki tekist að sameina Afríkuríkið eins og vonir stóðu til um.

Ringulreið hefur ríkt í Líbíu eftir að einræðisherranum Gaddhafi var steypt af stóli árið 2011. Liðsmenn Ríkis íslams náðu til að mynda völdum í borginni Sirte og hafa Bandaríkjamenn tekið þátt í að reyna að bola samtökunum í burtu með loftárásum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert