„Hann var bara venjulegur drengur“

Átta ára gamall drengur lést þegar handsprengju var kastað í …
Átta ára gamall drengur lést þegar handsprengju var kastað í gegnum glugga á íbúð í fjölbýlishúsi í Biskopsgården í úthverfi Gautaborgar. AFP

Drengurinn, sem lést þegar handsprengju var hent inn um glugga á íbúð í Biskopsgården í úthverfi Gautaborgar, var í heimsókn ásamt móður sinni og tveimur bræðrum hjá ættingjum í Svíþjóð. Fjölskyldan er búsett í ensku borginni Birmingham. Enginn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar en talið er að hún tengist glæpahópum í hverfinu. 

Drengurinn, sem var átta ára gamall, hét Yuusuf Warsame, og var nemandi við Nelson Mandela-grunnskólann í Sparkhill, Birmingham.

Að sögn lögreglu var drengurinn sofandi í stofu íbúðarinnar þegar handsprengju var hent gegnum gluggann. Fimm börn voru í íbúðinni þegar árásin var gerð. Faðir drengsins, Abdiwahid Warsame, segir í viðtali við Daily Mail að sonur hans hafi verið í fríi ásamt móður sinni og tveimur bræðrum hjá ættingjum í Svíþjóð.

„Hann var yndislegur drengur, fallegt barn,“ hefur blaðið eftir föðurnum. Öllum hafi líkað vel við hann og að hann hafi ætlað sér stóra hluti í lífinu. „Hann var bara venjulegur drengur.“

Í sænskum fjölmiðlum er haft eftir lögreglu að árásin tengist deilum glæpagengja en maður sem búsettur er í íbúðinni var nýverið dæmdur fyrir aðild að árás á bar í hverfinu í mars 2015. Þá réðust vopnaðir menn inn á bar og skutu til bana tvo og særðu átta. Átta voru dæmdir fyrir aðild að árásinni nýverið en hún er sögð tengjast deilum milli hópa Sómala sem búsettir eru í hverfinu. Mennirnir fengu allt frá sjö ára dómum til lífstíðardóma. 

Umfjöllun Svenska dagbladet

Móðirin sat grátandi í garðinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert