Flugvöllur rýmdur út af Zorro

Frá LAX í Los Angeles í nótt.
Frá LAX í Los Angeles í nótt. AFP

Flugvellinum í Los Angeles var lokað um tíma í gærkvöldi þar sem margir flugvallargestir töldu sig hafa heyrt skothvelli. Lögreglan segir aðeins um mikinn hávaða hafa verið að ræða og að hún hafi handtekið mann sem klæddist Zorro-grímubúningi vegna málsins.

Farþegar þustu út úr flugstöðvarbyggingunni í kjölfar hávaða sem minnti mjög á skothvelli. Lögreglan lokaði flugvellinum um tíma á meðan rannsakað var hvort um skothvelli hafi verið að ræða en umferð var hleypt um flugvöllinn nokkru síðar. 

„Fréttir af skothvellum á LAX reyndust aðeins vera vegna mikils hávaða,“ skrifaði upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Los Angeles á Twitter.

Engum skotum var skotið og enginn slasaðist en rannsókn heldur áfram, bætti hann við. 

Lögreglan á LAX-flugvelli segir að hún hafi handtekið mann sem klæddist svörtum Zorro-grímubúningi en ekki liggur ljóst fyrir hvaða hlutverki hann gegndi í atburðarásinni á flugvellinum. 

Einn af þeim sem tafðist vegna Zorro var Gary Lineker, íþróttafréttamaður BBC, en hann skrifar á Twitter að flugi hans til Las Vegas hafi verið frestað vegna manns í Zorro-búningi sem sveiflaði plastsverði á LAX. „hann hefur væntanlega verið á leiðinni til Vegas,“ skrifar Lineker á Twitter.

Leikkonan Anne Dudek segir í viðtali við LA Times að hún hafi verið í rúllustiga þegar maður kom hlaupandi og sagði að fólk hefði verið skotið. Fólk hafi hent frá sér farangrinum og hlaupið út úr flugstöðvarbyggingunni og mikill ótti gripið um sig meðal farþega. Dudek segist sjálf hafa hlaupið út úr byggingunni og út á bílastæði. Þar hafi hún farið í bíl sinn og forðað sér í burtu frá flugvellinum.

Frétt mbl.is: LAX rýmdur

LAX-flugvöllurinn í Los Angeles.
LAX-flugvöllurinn í Los Angeles. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert