Frekari aðgerðir gegn Norður-Kóreu

Barack Obama.
Barack Obama. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hét því í dag að beita sér fyrir frekari alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu vegna kjarnorkutilraunar þeirra í gær. Fordæmdi hann tilraunina sem væri ógn við öryggismál á svæðinu og frið og stöðugleika í heiminum að því er fram kemur í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að Obama hafi rætt símleiðis við Geun-Hye, forseta Suður-Kóreu, og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans í kjölfar þess að fréttir bárust af kjarnorkutilrauninni sem er sú fimmta sem Norður-Kórea gerir og sú öflugasta til þessa að því er talið er.

Sammæltust leiðtogarnir um að vinna með Öryggisráði sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélaginu og fylgja núverandi viðskiptaþvingunum eftir af meiri hörku auk þess að grípa til frekari þvingana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert