Norður-Kórea vill viðurkenningu

Norður-Kóreskir hermenn í varðturni nálægt landamærunum við Kína.
Norður-Kóreskir hermenn í varðturni nálægt landamærunum við Kína. AFP

Norður-Kórea hefur ítrekað kröfu sína um að verða viðurkennt sem lögmætt kjarnorkuríki á meðan alþjóðasamfélagið ígrundar hvað skuli taka til bragðs eftir tilraunasprengingar landsins. 

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur heitið því að styrkja kjarnorkuvopnabúrið, bæði hvað gæði og magn varðar. Fyrir tveimur dögum var framkvæmd tilraunasprenging, sú fimmta í áratug, sem hafði í för með sér alþjóðlega fordæmingu og gæti leitt til frekari viðskiptaþvingana. Sprengingin er talin hafa verið tvöfalt öflugri en í síðustu tilraun, fyrir um átta mánuðum. 

Ríkisstjórnin fullyrðir að tilraunirnar séu nauðsynlegar til að sporna gegn bandarísku kjarnorkuvánni sem ógni fullveldi Norður-Kóreu. Í tilkynningu frá talsmanni utanríkisráðuneytisins í Norður-Kóreu er hæðst að utanríkisstefnu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna.

Í tilkynningunni segir að tilraunir Obama til að neita Norður-Kóreu um viðurkenningu sem kjarnorkuríki séu jafn heimskulegar og að myrkva sólina með lófanum. 

Mesta áhyggjuefnið fyrir alþjóðasamfélagið er að ríkisstjórnin fullyrðir að sprengingin hafi verið framkvæmd með sprengjuoddum sem hægt væri að festa á eldflaugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert