Fjölskyldur snúa aftur til Falluja

Írösk fjölskylda kemur heim.
Írösk fjölskylda kemur heim. AFP

Íraskar fjölskyldur eru farnar að snúa aftur til Falluja nú þegar þrír mánuðir eru liðnir frá því að borgin var tekin aftur úr höndum liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Fjörutíu fjölskyldur eru komnar heim eftir bakgrunnsathuganir og öryggisúttektir á hverfunum þar sem þær bjuggu en 236 fjölskyldur komu aftur til borgarinnar á laugardag.

Öryggissveitir lýstu Falluja frelsaða í júní eftir mánaðarlangar aðgerðir íraskra hersveita með stuðningi bandaríska lofthersins. Borgin var sú fyrsta sem féll í hendur Ríkis íslams, í janúar 2014.

Borgin Ramadi var einnig frelsuð á þessu ári en stórir hlutar hennar eru ekki hæfir til búsetu vegna eyðileggingar og sprengjuhættu. Fleiri en hundrað almennir borgarar létust í sprengingum í Ramadi þegar þeir gerðu tilraun til að snúa aftur. Írösk yfirvöld hófu að snúa fólkinu til baka í kjölfarið.

Liðsmenn Ríkis íslams stjórna enn borginni Mosul, sem er sú næststærsta í Írak. Vonir standa til að stjórnarherinn nái henni aftur á sitt vald á þessu ári, en þær áætlanir gætu tafist vegna undirbúnings mannúðaraðgerða sem munu eiga sér stað samhliða.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert