21 barn fær frelsi

AFP

Sameinuðu þjóðirnar fagna lausn 21 barns úr fangelsi í Súdan en börnin eiga það sameiginlegt að hafa verið þvinguð í barnahermennsku í heimalandinu.

Ríkisstjórn landsins lét börnin laus í gær en þau hafa setið í fangelsi frá því þau voru handtekin í Darfúr-héraði í fyrra. Þar tóku þau þátt í bardögum Réttlætis- og jafnréttishreyfingarinnar eða JEM, og stjórnarhersins í Súdan.

Marta Reudas, fulltrúi SÞ í Súdan, segir þetta mikilvægan áfanga og sýni að stjórnvöld ætli sér að verja börn sem eru fórnarlömb stríðsátaka í landinu. Stjórnvöld ætli að auka réttindi barna í landinu, meðal annars á þeim svæðum sem vopnuð átök geisa. 

Í mars var undirrituð aðgerðaráætlun sem miðar að því að vernda börn sem eru fórnarlömb stríðsátaka í Súdan, einkum og sér í lagi að reyna að vernda þau fyrir því að lenda sjálf í hermennsku. Jafnframt að frelsa þau úr slíkri ánauð og veita endurhæfingu. Ekki sé hægt að ræna súdönsk börn framtíðinni endalaust. Ekkert barn eigi að þurfa að búa við fjandsamlegar aðstæður sem þar eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert