Páfi gagnrýnir slúðurblöð

AFP

Blaðamennska sem byggir á kjaftasögum eða orðrómi er ákveðin tegund af „hryðjuverkastarfsemi“ og fjölmiðlar sem gera út á ótta fjölda flóttafólks og steypa alla í sama mót hafa eyðandi áhrif á samfélagið, segir Frans páfi. 

Þetta er meðal þess sem páfinn sagði þegar hann ávarpaði forystusveit samtaka blaðamanna á Ítalíu í gær. Hann segir að blaðamenn verði að leggja meira á sig til þess að leita sannleikans, ekki síst á tímum fjölmiðla sem aldrei sofa.

„Að dreifa orðrómi er dæmi um hryðjuverkastarfsemi þar sem þú getur drepið manneskju með tungu þinni,“ segir Frans páfi. Hann segir að þetta eigi enn frekar við um blaðamenn þar sem allir heyri þeirra rödd og það sé mjög öflugt vopn.

Á Ítalíu, þar sem mörg dagblaða eru mjög pólitísk, er ekki óalgengt að þar séu andstæðingar þeirra í stjórnmálum ataðir aur í orðum blaðamanna og leiðarahöfunda. Stundum birta þessir fjölmiðlar óstaðfestan orðróm um einkalíf viðkomandi andstæðinga sinna í stjórnmálum.

Árið 2009 voru fjölmiðlar í eigu Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra, harðlega gagnrýndir af samtökum blaðamanna vegna frétta sem fjölmiðlarnir birtu um dómara sem dæmdi fyrirtæki í eigu Berlusconi-fjölskyldunnar í óhag. Í fréttum þeirra var meðal annars fjallað um klæðaburð dómarans, þar á meðal litinn á sokkunum sem hann gekk í. Eins um gönguferðir hans í almenningsgarði. 

Frans páfi segir að ekki eigi að nota fjölmiðla sem eyðingarvopn gegn fólki og jafnvel mannfjölda. „Fjölmiðlar eiga heldur ekki að ýta undir ótta gagnvart fólki sem neytt er á flótta undan stríði og hungri,“ segir páfi. 

Í fyrra birti Libero, hægri sinnað dagblaðið, fyrirsögn um árásirnar í París sem kostuðu 130 manns lífið: „Múslímsku skíthælar“.

Annað hægri sinnað dagblað, Il Giornale, birti í fyrra frétt um ástandið í Líbíu með fyrirsögninni: „Ríki íslams er að koma. Vígbúumst“.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert