Sprengjuhótun í Svíþjóð

Sænska lögreglan
Sænska lögreglan AFP

Tveir eru í haldi lögreglu eftir að sprengjuhótun barst á heimili fyrir flóttafólk í sænska bænum Boden í gærkvöldi.

Lögreglunni barst tilkynning um hótunina í gærkvöldi og voru allir íbúar heimilisins fluttir á brott, alls 141. Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu og tóku bæði almennir lögreglumenn, sérsveitarmenn (Säpo) og sprengjudeild lögreglunnar í Stokkhólmi þátt í aðgerðunum. Mennirnir voru yfirheyrðir í nótt en þeir eru grunaðir um að stefna lífi almennings í hættu.

Engin sprengja fannst í húsinu en sprengjuleitarsveitin var að störfum þangað til snemma í morgun. Íbúarnir hafa hins vegar ekki enn fengið að snúa aftur heim, samkvæmt frétt SvD. Þeir dvelja nú í búðum hersins sem ekki eru lengur í notkun.

Öryggisvörður á heimilinu, Joan Shekho, segir í samtali við sænska sjónvarpið að margir íbúanna hafi orðið mjög skelkaðir enda margir þeirra sem koma frá stríðshrjáðum svæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert