Einn látinn og börn á meðal særðra

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Tvö grunnskólabörn og einn kennari særðust þegar skotárás var gerð í grunnskólanum í bænum Townville í Suður-Karólínu í dag. Unglingur sem grunaður er um árásina er í haldi lögeglu. „Einn árásarmaður er í varðhaldi, hann er unglingur,” sagði starfsmaður á skrifstofu fógetans í bænum í samtali við fjölmiðil í bænum.

Frétt mbl.is: Einn talinn af eftir skotárás í skóla

Þá fannst einn látinn í heimahúsi u.þ.b. fimm kílómetrum frá skólanum. Skrifstofa fógetans segir málið tengjast skotárásinni í skólanum. Í fyrstu fréttum af skotárásinni kom ekki greinilega fram að sá látni hafi verið í heimahúsi en ekki í skólanum þar sem árásin var gerð.

Í frétt AFP segir að grunnskólabörnin tvö hefðu verið flutt með þyrlu á sjúkrahús en bæði meðhöndluð með slíkum hætti að þau séu ekki talin vera í lífshættu. Ekki kemur fram hversu alvarlega kennarinn særðist, en hann var fluttur á aðra heilbrigðisstofnun en börnin tvö.

Skotárásin var gerð rétt eftir hádegi, klukkan eitt að staðartíma. Skólinn hefur síðan verið rýmdur og börnin flutt með skólabílum í kirkju í nágrenni skólans. Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu vegna árásarinnar en á myndum frá vettvangi mátti sjá þungvopnaða lögregluþjóna, einhverjir með hjálma og í skotheldum vestum.

Tæplega 300 börn eru í skólanum að því er AFP-fréttastofan hefur eftir fjölmiðli í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert