Sendi keppinauti dauðan þvottabjörn og skunka

Rannsókn málsins hófst júní þegar að póstþjónusta bæjarins fór að …
Rannsókn málsins hófst júní þegar að póstþjónusta bæjarins fór að fá skrýtna pakka sem lyktuðu eins og skunkar. Þá lak blóð úr pökkunum. Samsett mynd

Maður í Indiana-ríki Bandaríkjanna hefur verið handtekinn eftir að hann reyndi að senda dauða skunka og þvottabirni heim til manns sem valinn var fram yfir hann sem körfuboltaþjálfari í grunnskóla. Travis Tarrants, var handtekinn og m.a. sakaður um dýraníð og áreitni.

Reuters greinir frá þessu.

Þá var hann einnig sakaður um að hafa unnið skemmdarverk á bíl hins mannsins með því að skrifa „þuú munt deyja“ með málningu á bílinn. Voru þetta að mati lögreglu tilraunir Tarrants til þess að fá keppinautinn til þess að hætta sem þjálfari liðsins og jafnframt sem kennari fjórða bekkjar í bænum French Lick.

„Þetta er furðulegt og bara erfitt að trúa þessu,“ sagði fangelsisfulltrúi lögreglustjórans í Jackson sýslu, Charles Murphy í samtali við fjölmiðla.

Hann sagði að rannsókn málsins hafi byrjað í júní þegar að póstþjónusta bæjarins fór að fá skrýtna pakka sem lyktuðu eins og skunkar. Þá lak blóð úr pökkunum.

Rannsókn lögreglu og póstþjónustunnar leiddi lögreglumenn til Tarrants, en hann er umsjónamaður á litlu safni í bænum West Baden, skammt frá French Lick.

Lögregla telur að Tarrants hafi verið með herferð í gangi til þess að fórnarlambið yrði rekið eða myndi neyðast til þess að hætta.

„Ég skil þetta þannig að Tarrants hafi ákveðið að búa til rangar upplýsingar um manninn sem fékk starfið, sakaði hann um barnaníð og setti í póst nokkra dauða skunka og þvottabjörn,“ sagði Murphy.

Að sögn vitna veiddi Tarrants dýrin í gildrur fyrir utan heimili sitt í West Baden. Þá er hann einnig sakaður um að hafa hringt í barnavernd sýslunnar og sagt að keppninauturinn hafi stundað mök með 15 ára dreng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert