Skipar „hórusyninum“ til helvítis

Rodrigo Duterte og Barack Obama.
Rodrigo Duterte og Barack Obama. AFP/samsett mynd

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur sagt Barack Obama Bandaríkjaforseta að „fara til helvítis“ og hótað því að binda enda á bandalag Filippseyja og Bandaríkjanna og halla sér þess í stað að Kína og Rússlandi.

Ekki er langt um liðið frá því að forsetinn kallaði Obama „hóruson“.

Nú standa yfir svokallaðir „herleikar“, eða hernaðaræfingar, Filippseyja og Bandaríkjanna, mögulega í hinsta sinn að sögn Duterte.

Frétt mbl.is: Kallaði Obama „hóruson“

„Ég hef misst virðingu mína fyrir Bandaríkjunum,“ sagði Duterte í dag en hann hefur kvartað sáran yfir áköllum Bandaríkjanna, Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins um að hann virði mannréttindi þegna sinna.

„Herra Obama; farðu til helvítis.“

Forsetinn sakaði Bandaríkjamenn um tvískinnungshátt og sagði að sá tími gæti komið að hann sliti samskiptum ríkjanna, sem hafa meðal annars gert með sér varnarsamning.

„Að lokum, á mínu kjörtímabili, kann ég að skilja við Bandaríkin. Ég myndi frekar ræða við Rússland eða Kína. Jafnvel þótt við séum ekki sammála hugmyndafræði þeirra, þá virða þeir þjóð sína. Virðing er mikilvæg,“ sagði Duterte.

Duterte er afar umdeildur, svo ekki sé meira sagt, en fleiri en 3.000 hafa látið lífið í aðgerðum hans gegn fíkniefnum. Sjálfur hefur hann sagt að hann myndi „glaður slátra“ þremur milljónum fíkla til að ná markmiðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert