Þrettán látist af völdum kóleru

Eyðileggingin er mikil eftir Matthew.
Eyðileggingin er mikil eftir Matthew. AFP

Að minnsta kosti 13 hafa látist af völdum kóleru í  suðvesturhluta Haítí eftir að fellibylurinn Matthew gekk yfir landið. Óttast er að kólera eigi eftir að breiðast hratt út vegna skorts á hreinlæti og menguðu drykkjarvatni. Að minnsta kosti 62 manns hafa veikst af völdum kóleru, samkvæmt Reuters-fréttastofunni. 

Á sjúkrahúsi í bænum Randel létust sex manns af völdum kóleru og sjö í strandbænum Anse-d'Ainault. Kólera veldur niðurgangi og getur fólk látist á nokkrum klukkustundum ef það er ekki meðhöndlað. Kólera berst með drykkjarvatni og er bráðsmitandi og er hún því fljót að breiðast út. Stjórnvöld reyna að hefta útbreiðslu kóleru og hafa komið á fót hjálparmiðstöðvum.

Samkvæmt Reuters hafa að minnsta kosti 900 látist á Haítí af völdum fellibyljarins. Stjórnvöld á Haítí hafa lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu. 

„Randel er einangraður ... fólk er byrjað að láta lífið.“ Þetta er haft eftir Eli Pierre Celestin sem berst gegn útbreiðslu kóleru á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Hann bendir á að á svæðinu séu hjúkrunarfræðingar en engir læknar.

Neyðaraðgerðir hjá UNICEF 

Neyðaraðgerðir barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, á Haítí eru hafnar þar sem nauðsynlegum hjálpargögnum hefur verið úthlutað og aðgengi að hreinu vatni.  „Þetta er kapphlaup við tímann við að bregðast við neyð barnanna sem eru verst stödd og komast til þeirra á undan kólerunni.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert