Kínverjar styðja Duterte

Rodrigo Duterte.
Rodrigo Duterte. AFP

Kínversk yfirvöld lýstu í dag yfir stuðningi við aðgerðir Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, gegn eiturlyfjavandanum í landinu. Yfir 3700 manns hafa verið drepnir síðan Duterte tók við embætti í lok júní.

„Við skiljum og styðjum aðgerðirnar í Filippseyjum til að koma skikki á eiturlyfjavandann,“ sagði talsmaður utanríkisráðherra Kína í dag en Duterte er væntanlegur í opnabera heimsókn til Kína.

Duterte heimsækir Kína í næstu viku en það verður fyrsta opinbera heimsókn hans utan suðaustur Asíu síðan hann tók við embætti í sumar.

Forsetinn vill betra samband við Kína og Rússland en hefur átt í miklu orðaskaki við bandarísk stjórnvöld. Hann kallaði Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til að mynda hóruson í síðasta mánuði.

Var það vegna þess að Obana lýsti yfir áhyggjum vegna aðgerða Duterte. Filippseyski forsetinn sagði síðar að hann iðraðist orða sinna.

Duterte hefur lýst leiðtoga Kína, Xi Jinping, sem „frábærum forseta“ og hefur hrósað Kína og Rússlandi fyrir að virða það sem hann gerir í heimalandi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert