Helstu aðferðir í bardaganum um Mosúl

Íraskir hermenn austur af Mosúl.
Íraskir hermenn austur af Mosúl. AFP

Stjórnarher Íraks hefur hafið lokasókn á írösku borgina Mosúl í von um að endurheimta hana frá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem sölsuðu hana undir sig fyrir rúmum tveimur árum.

Frétt mbl.is: Reynt til þrautar að endurheimta Mosúl

Hér eru nokkrar af þeim aðferðum sem líklegt er að herinn muni beita, með aðstoð bandamanna, og einnig þær sem Ríki íslams mun beita gegn þeim:

Umkringja fyrst og ráðast svo til atlögu

Íraski herinn mun reyna að komast að borginni og síðan leitast eftir því að umkringja hana áður en bardagar hefjast í borginni sjálfri. Þetta er sama aðferðafræði og herinn hefur notað við að endurheimta aðrar borgir sem voru undir stjórn Ríkis íslams, þar á meðal Ramadi og Tikrit.

Bardaginn í Mosúl verður líklega undir stjórn and-hryðjuverkadeildar hersins, sem hefur verið í fararbroddi í flestum aðgerðunum gegn samtökunum.

Til að komast til Mosúl þarf Íraksher að sölsa undir sig tuga kílómetra svæði sem er undir stjórn Ríkis íslams, þar á meðal fjölmörg þorp.

Sprenging í borginni Nineveh, um 25 kílómetra austur af Mosúl.
Sprenging í borginni Nineveh, um 25 kílómetra austur af Mosúl. AFP

Bandamenn, undir forystu Bandaríkjamanna, munu efna til loftárása gegn Ríki íslams. Líklega verða meðal annars notaðar Apache-herþyrlur. Bandamenn hafa einnig sent fallbyssur og eldflaugaskotpalla á svæðið sem hægt verður að nota á jörðu niðri.

Í vopnabúri Írakshers verða meðal annars árásarrifflar, leyniskytturifflar, vélbyssur, skriðdrekar, árásarþyrlur og þotur af gerðinni Su-25 og F-16.

Íraskir hermenn fylgjast með gangi mála frá fjallinu Zardag, um …
Íraskir hermenn fylgjast með gangi mála frá fjallinu Zardag, um 25 kílómetra austur af Mosúl. AFP

Sprengjur og mannlegir skildir

Ríki íslams verður mun fámennara í baráttunni um Mosúl og mun vega að hermönnum Íraks úr launsátri, nota leyniskyttur og alls kyns sprengjur til að stöðva andstæðinga sína. Liðsmenn samtakanna hafa verið duglegir að nota sprengjur í öðrum borgum.

Vegna hve margir almennir borgarar eru enn í Mosúl, eða um 1,5 millj­ónir, getur Ríki íslams líklega ekki komið þar fyrir eins mörgum sprengjum og víða annars staðar. Samt sem áður verða þær fyrirferðarmiklar hjá samtökunum.

Eldflaugum skotið á loft.
Eldflaugum skotið á loft. AFP

Sjálfsmorðssprengjumenn munu ráðast á hermenn Íraka. Sumir verða klæddir sprengjuvestum, eða -beltum, á meðan aðrir verða í farartækjum hlöðnum sprengiefni. Einnig eru þeir líklegir til að ráðast til atlögu með byssum og sprengja sig síðan í loft upp.

Búast má við því að þeir muni einnig nota almenna borgara í Mosúl sem mannlega skildi til að takmarka loftárásir bandamanna. Liðsmenn Ríkis íslams hafa jafnframt brugðið á það ráð að kveika elda til að koma í veg fyrir að herflugvélar komi auga á þá. 

Íraskir lögreglumenn á herstöðinni Qayyarah, sem er um 60 kílómetra …
Íraskir lögreglumenn á herstöðinni Qayyarah, sem er um 60 kílómetra suður af Mosúl, hreinsa vopn. AFP

Ríki íslams lagði hald á brynvarða bíla, vörubíla, vopn og ýmislegt fleira þegar þeir tóku Mosúl og önnur svæði á sitt vald í júní 2014. Ekki er ljóst hversu mikið af þeim faratækjum og vopnum er enn til staðar hjá samtökunum.

Íraskir hermenn á ferð í al-Shourah, um 45 kílómetra suður …
Íraskir hermenn á ferð í al-Shourah, um 45 kílómetra suður af Mosúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert