53 létust í lestarslysi í Kamerún

Farþegar yfirgefa lestina sem fór út af teinunum í nágrenni …
Farþegar yfirgefa lestina sem fór út af teinunum í nágrenni bæjarins Eseka í Kamerún. 53 fórust í slysinu. AFP

53 hið minnsta létu lífið og tæplega 300 manns slösuðust þegar þéttsetinn farþegalest sem var á leið milli tveggja stærstu borga Kamerún fór út af teinunum. Edgar Alain Mebe Ngo‘o, samgöngumálaráðherra landsins, sagði einungis komnar bráðabirgðatölur yfir fjölda látinna og slasaðra, en atvikið átti sér stað nærri bænum Eseka.

Lestin var á leið frá höfuðborginni Yaounde til Douala, sem er ein helsta verslunarmiðstöð landsins þegar slysið átti sér stað.

„Það heyrðist hátt hljóð. Ég leit aftur fyrir mig og sá að vagnarnir fyrir aftan okkur höfðu farið af teinunum og voru farnir að velta. Það var mikill reykur,“ sagði fréttamaður Reuters-fréttastofunnar sem var staddur í einum af fremri vögnum lestarinnar.

„Það eru lík kvenna og barna. Þau eru mörg,“ sagði einn starfsmanna Camrail lestarfélagsins og aðrir lýstu sundurskornum líkamshlutum á lestarteinunum.

„Björgunarsveitir eru komnar á vettvang og þær eru að ná hinum látnu úr vögnunum. Ég hef þegar talið fjörtíu lík sem þeir eru búnir að fara með á brott,“ sagði Rachelle Paden, einn af farþegum lestarinnar.

Lestarsamgöngur í vestur- og miðhluta Afríku hafa á sér slælegt orð fyrir lélegt viðhald og að almennum öryggisreglum sé illa hlýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert