Facebook biðst afsökunar vegna brjóstamyndbands

Cancerfonden var búið að bjóða Facebook að breyta hringjunum tveimur …
Cancerfonden var búið að bjóða Facebook að breyta hringjunum tveimur sem táknuðu brjóstin í ferninga ef það drægi úr „dónalegheitunum“. Ljósmynd/Cancerfonden

Forsvarsmenn Facebook hafa nú beðist afsökunar á að hafa fjarlægt myndband sænska krabbameinsfélagsins Cancerfonden, sem vekja á at­hygli á hætt­unni á brjóstakrabba.

Um er að ræða teikni­mynd sem sýndi konu með hring­laga brjóst og var mynd­band­inu ætlað að út­skýra hvernig kon­ur geti skoðað brjóst sín og leitað að hnútum sem gætu reyn­st vera æxli. Myndbandið var talið „dónalegt“ að mati samfélagsmiðilsins.

Frétt mbl.is: Facebook vill ekki brjóstakrabbamyndband

Í yfirlýsingu sem Facebook sendi fréttavef BBC er sagt að birting myndbandsins hafi nú verið heimiluð.

„Okkur þykir þetta mjög leitt, teymi okkar fer í gegnum milljónir auglýsinga í viku hverri og stöku sinnum eru auglýsingar ranglega bannaðar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þetta myndband brýtur ekki í bága við auglýsingastefnu okkar. Við biðjumst afsökunar á mistökunum og höfum tilkynnt auglýsandanum að við samþykkjum auglýsinguna.“

Cancerfonden hafði áður margreynt að fá svör frá forsvarsmönnum Facebook og í opnu bréfi til samfélagsmiðilsins sögðu samtökin herferðina ekki eiga að vera dónalega. Þau hefðu enn fremur fundið lausn á vandanum – að breyta hringjunum tveimur sem táknuðu brjóstin í bleika ferninga.

Sambærilegt myndefni hefur verið fjarlægt af Facebook áður að sögn BBC, m.a. mynd af brjóstamyndatöku og önnur sem sýndi geirvörtur vera húðflúraðar á konu sem brjóstið hafði verið tekið af.

Ekki er langt síðan sú ákvörðun Face­book að eyða þekktri frétta­ljós­mynd af nak­inni víet­namskri stúlku, sem flýr und­an nap­alm-sprengj­um, úr færslu Ernu Sol­berg, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, vakti harða gagn­rýni. Face­book sagði mynd­ina brjóta gegn regl­um fyr­ir­tæk­is­ins en dró þá ákvörðun sína síðar til baka.

Hringlaga brjóstin sem ullu því að myndbandið var flaggað sem …
Hringlaga brjóstin sem ullu því að myndbandið var flaggað sem dónalegt. Ljósmynd/Cancerfonden
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert