„Forsetafrú helvítis“ tjáir sig

Asma al-Assad á hóteli í París árið 2010. Hún hefur …
Asma al-Assad á hóteli í París árið 2010. Hún hefur bæði verið kölluð eyðimerkurrósin og forsetafrúin frá helvíti. AFP

Í vikunni sem leið veitti Asma al-Assad sitt fyrsta viðtal í átta ár. Hún sagði viðmælanda sínum að hún fyndi til „sársauka og sorgar“ þegar hún hitti slasaða og munaðarlausa og byðist til að aðstoða þá. „Gætir þú hunsað þá? Í Sýrlandi trúum við á að standa við orð sín. Það er mikilvægt,“ sagði forsetafrúin.

Sú staðreynd að eiginmaður Ösmu, Bashar al-Assad, lætur sprengjum rigna yfir eigin borgara kom ekki til tals í viðtali forsetafrúarinnar við Rás 24 í Rússlandi, en hún gekkst við því að „fordæmalausrar“ þjáningar gætti meðal beggja aðila í deilunni.

Þá bar það ekki á góma að Rússar hafa verið sakaðir um stríðsglæpi vegna loftárása sinna til stuðnings hersveitum forsetans.

Hvers vegna, var Asma hins vegar spurð, leitast erlendir fjölmiðlar við því að gagnrýna fjölskyldu hennar í stað þess að einblína á góðgerðastarf fosretafrúarinnar? „Þú verður að spyrja þá að því,“ svaraði hún.

Viðtalið við Ösmu hefur vakið nokkra athygli, ekki vegna innihaldsins, heldur vegna ákvörðunar hennar um að stíga fram á sjónarsviðið og tjá sig. Hún hefur ýmist verið kölluð „eyðimerkurrósin“ eða „forsetafrúin frá helvíti“, en menn eiga erfitt með að sætta tal hennar um samkennd og grimmdarverk eiginmanns hennar.

David Lesch, prófessor í sagnfræði við Trinity University í San Antonio í Texas og höfundur bókarinnar Syria: The Fall of the House of Assad, segir viðtalið til marks um sjálfsöryggi stjórnvalda í Sýrlandi og viðleitni til að skapa ímynd stöðugleika og óumflýjanleika.

„Ég tel að þau upplifi að þau séu örugg í náinni framtíð, vegna þess stuðnings sem þau hafa fengið frá Rússlandi og Íran,“ segir hann.

Þegar Bashar al-Assad tók við embætti batt fólk vonir við …
Þegar Bashar al-Assad tók við embætti batt fólk vonir við að hin ungu hjón boðuðu breytingar og að ár einræðisins væru liðin. Þær vonir eru brostnar. AFP

Asma ólst upp í Acton og var dóttir sýrlensks-bresks hjartasérfræðings. Hún sótti skóla á vegum ensku biskupakirkjunnar, þar sem hún var kölluð Emma, og þótti fyndin og vinaleg en fljót til reiði.

Hún nam frönsku og tölvunarfræði við King's College í Lundúnum og starfaði um skeið í fjármálageiranum í New York. Hún kynntist Bashar þegar hann var við nám í Lundúnum og þau gengu í hjónband árið 2000, aðeins mánuðum eftir að hann varð forseti. Asma var þá 25 ára.

„Fólk talaði um Damaskus-vor þegar Bashar tók við af föður sínum,“ segir Chris Doyle, framkvæmdastjóri Council for Arab-British Understanding. Fólk vonaðist til að hið unga menntaða fólk boðaði breytingar og að margra ára einræðistíma væri lokið.

Það reyndist fjarri sanni.

Þegar borgarastyrjöld braust út í Sýrlandi veltu menn því fyrir sér hversu mikið Asma vissi um gjörðir eiginmanns síns. Árið 2012 biðluðu eiginkonur sendifulltrúa Bretlands og Þýskalands við Sameinuðu þjóðirnar til hennar um að stöðva blóðbaðið. Hún gæti ekki falið sig á bakvið eiginmann sinn.

Doyle segir ótrúverðugt að hún viti ekki hvað eiginmaður hennar hefur gert. Forsetahjónin hafi vanist því að hafa völd, og völd spilli. Fátt bendir hins vegar til þess að þau njóti mikillar hylli meðal þegna sinna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert