Réttarhöld vegna berbrjósta mynda

Katrín og Vilhjálmur.
Katrín og Vilhjálmur. AFP

Réttarhöld yfir sex blaðamönnum, ljósmyndurum og yfirmönnum fjölmiðla verða haldin í Frakklandi á næsta ári vegna mynda sem birtust af Katrínu, hertogaynju af Cambridge, árið 2012.

Frétt mbl.is: Hertogahjónin höfða mál 

Myndirnar voru teknar af Katrínu, sem er eiginkona Vilhjálms Bretaprins, með aðdráttarlinsu þar sem hún sást berbrjósta úti á svölum í einkahúsnæði í suðurhluta Frakklands er hún var þar í fríi með Vilhjálmi.

Myndirnar birtust í franska slúðurtímaritinu Closer í september 2012. Breska konungsfjölskyldan brást illa við og fór í framhaldinu af stað mikil umræða um innrás fjölmiðla í einkalíf fræga fólksins.

Katrín ásamt konungi Hollands, Willem-Alexander fyrr í þessum mánuði.
Katrín ásamt konungi Hollands, Willem-Alexander fyrr í þessum mánuði. AFP

Ritstjóri Closer, yfirmaður Mondadori-fjölmiðlasamsteypunnar sem á blaðið, tveir ljósmyndarar þess í París, annar ljósmyndari og starfsmaður dagblaðsins La Provence, þar sem myndirnar birtust einnig, þurfa að svara til saka í réttarsal vegna birtingar þeirra.

Stjórnendur La Provence hafa neitað því að einn af ljósmyndurum þeirra hafi tekið umræddar myndir.

Þær voru síðar birtar í öðrum evrópskum fjölmiðlum, þar á meðal í tímaritinu Chi. Það er í eigu Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, rétt eins og Mondadori-samsteypan.

Konungsfjölskyldan fór fram á lögbann og höfðaði mál til að koma í veg fyrir frekari birtingu myndanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert