Búið að rýma Calais-búðirnar

Yfirvöld í Frakklandi segja að búið sé að flytja á brott alla íbúa flóttamannabúðanna í Calais, sem í daglegu tali hafa verið nefndar Jungle-búðirnar eða „Frumskógurinn.“

Fabienne Buccio, lögreglustjóri í héraðinu, sagði að rýmingunni sem hófst á mánudag væri nú lokið. Að sögn fréttavefjar BBC sendi lögregla tilkynninguna frá sér eftir að eldar, sem kveiktir voru í búðunum í nótt, héldu áfram að loga.

Flóttamannabúðirnar í Calais voru sjálfsprottnar og þykja ein af táknmyndum þess vanda sem Evrópuríki standa nú frammi fyrir vegna straums hælisleitenda og flóttamanna til álfunnar. Talið var að á bilinu 6-8.000 flóttamenn dveldu í búðunum og vildi stór hópur þeirra komast yfir til Bretlands.

Frönsk yfirvöld hafa frá því á mánudag flutt þúsundir íbúa búðanna með rútum til flóttamannabúða víðs vegar um Frakkland, þar sem fólkið verður skráð og getur í framhaldi sótt um hæli.

Rýming búðanna hefur gengið hraðar en gert var ráð fyrir og nú síðdegis í dag sagði Buccion verkefninu lokið. „Þetta eru endalok frumskógarins. Verkefni okkar er lokið. Það eru engir hælisleitendur eftir í búðunum,“ sagði hann.

Búið er að flytja 4.404 hælisleitendur í flóttamannamiðstöðvar víðs vegar um landið að sögn lögreglustjórans. Úrvinnsla stendur þó enn yfir í búðunum, en henni mun ljúka nú í kvöld.

Fylgdarlausum börnum hefur verið búinn tímabundinn dvalarstaður í gámum í nágrenni búðanna sem breytt hefur verið í híbýli og er nú þegar búið að skrá 1.200 fylgdarlaus börn sem höfðust við í flóttamannabúðunum.

Fréttaritari BBC í Calais telur líkur á að hluti íbúa búðanna hafi látið sig hverfa og hafist nú við undir berum himni, enda telja frönsk yfirvöld nokkra hættu á að hluti íbúanna snúi aftur í búðirnar og komu sér upp skýlum þar á ný þegar búið verður að jafna þær við jörðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert