Merkel vill fjórða kjörtímabilið

Merkel varð kanslari 2005.
Merkel varð kanslari 2005. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hyggst sækjast eftir því að sitja fjórða kjörtímabilið í embætti. Frá þessu greindi náinn samstarfsmaður hennar, Norbert Roettgen, í samtali við CNN.

„Hún er algjörlega ákveðin, vel til þess fallin og reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að styrkja hina alþjóðlegu frjálslyndu skipan,“ sagði Roettgen, sem er einn af forsvarsmönnum Kristilegra demókrata.

Merkel, sem varð kanslari 2005, hefur átt undir högg að sækja á árinu sem er að líða. Flokkur hennar mátti þola röð ósigra í kosningum heima fyrir og þá hefur Merkel verið harðlega gagnrýnd úr öllum áttum fyrir stefnu sína í innflytjendamálum.

Stjórnmálaspekingar segja sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum vestanhafs hins vegar leggja enn frekari byrðar á herðar hennar.

„Kanslarinn er einn af hornsteinum hinnar pólitísku hugmyndar um Vesturlönd sem þátttakendur á hinu alþjóðlega sviði. Þannig að hún mun fara fram, hún mun hegða sér eins og ábyrgur leiðtogi,“ sagði Roettgen.

Hann vildi þó gera lítið úr þeirri hugmynd að Merkel væri nú hinn raunverulegi „leiðtogi hins frjálsa heims“. Sagði hann ómögulegt að leggja það á eina manneskju. „Við þurfum Vesturlönd og Vesturlönd eru ómissandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert