Ísbjörn klappar sleðahundi

Ísbjörn klappar hundinum gætilega á höfuðið.
Ísbjörn klappar hundinum gætilega á höfuðið. Skjáskot/YouTube

Það er ekki með öllu óþekkt, en þó mjög sjaldgæft, að ísbirnir vingist við sleðahunda. Leiðsögumaður um víðerni Kanada náði á dögunum myndskeiði af því þegar ísbjörn kom að sleðahundi og klappaði honum blíðlega á kollinn. Sleðahundurinn var bundinn í keðju og lét sér að því er virtist vel lynda. Hitt gæti þó einnig verið að hann hafi verið hræddur en séð sér þann kost vænstan að láta eins og ekkert væri. Um er að ræða sleðahund af kyni sem ræktandinn segir að sé „óttalaust og hart af sér, líkt og ljón.“

Ljóst má vera að ísbirnir geta auðveldlega drepið hunda, sérstaklega ef þeir eru bundnir fastir. Það hafa þeir líka gert á býlinu þar sem myndskeiðið var tekið, reyndar mjög nýlega. Hefur ræktandinn verið sakaður um að gefa ísbjörnum að éta á svæðinu og hafa yfivöld dýravelferðarmála þurft að flytja björn þaðan eftir að hann drap sleðahund.

Rétt eins og þeir væru vinir

„Ég hafði ekki hugmynd um að þetta myndi gerast,“ segir leiðsögumaðurinn David De Meulles í samtali við CBC-fréttastofuna í Kanada um samskipti bjarnarins og hundsins. „Svo fór hann að klappa hundinum, rétt eins og þeir væru vinir.“

De Meulles var með hóp ferðamanna á svæðinu. Tilgangur ferðarinnar var að skoða ísbirni í návígi en þeir sjást reglulega við býli hundaræktandans.

Í uppfærðri frétt CBC-fréttastofunnar um málið segir að í kjölfar birtingar myndskeiðsins nú um helgina sem og fregna um að ísbjörn hafi ráðist á og drepið annan sleðahund, hafi aðbúnaður á svæðinu verið gagnrýndur. Fréttastofan segir að í síðustu viku hafi þurft að flytja þaðan þrjá birni. M.a. var um að ræða birnu með hún. Talið er að hundaræktandinn hafi gefið þeim að éta og þar með hafi hegðun þeirra breyst og áhyggjur vaknað.

Ræktandinn, Brian Landoon, segir að í síðustu viku hafi níu birnir verið á landeigninni þar sem hann geymir hunda sína. Þá hafi einn þeirra ráðist á hund og étið hann. Þann dag hafi hann ekki gefið björnunum að éta. 

Samkvæmt lögum er ólöglegt að fæða dýr í útrýmingarhættu, s.s. ísbirni. Landoon hefur verið kærður fyrir brot á þessum lögum sem miða að því að vernda stofn ísbjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert