Hundruð þúsunda mótmæla forseta S-Kóreu

Hundruð þúsunda tóku í dag þátt í mótmælum í miðborg Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu. Er þetta fimmta vikan sem mótmælendur koma saman til að lýsa óánægju sinni með Park Geun-hye forseta landsins. Reuters fréttastofan segir þetta vera fjölmennustu langvinnu mótmæli sem efnt hefur verið til í landinu, frá því árið 1987 þegar þess var krafist að Suður-Kórea yrði lýðræðisríki.

Ásakanir um spillingu hafa skyggt á forsetatíð Park, sem er sökuð um að leyfa nánum vini að nýta sér tengsl sín til að hafa áhrif á stjórn ríkisins.

Frétt mbl.is: Viagra á skrifstofu forsetans

Skipuleggjendur segja um 800.000 manns hafa verið mætta á staðinn við upphaf mótmælanna nú í kvöld að staðartíma og kváðust þeir gera ráð fyrir að mótmælendur yrðu orðnir 1,5 milljón áður en kvöldinu lyki. Lögregla neitar hins vegar að áætla fjölda mótmælenda, en segir 25.000 lögreglumenn hafa verið senda á staðinn til að fylgjast með mótmælunum.

Mótmælin hafa verið friðsæl til þessa og víða er kveikt á kertum, auk þess sem rokkhljómsveitir hafa skemmt mótmælendum.

„Ég var að horfa á fréttirnar og hugsaði, þetta getur ekki haldið áfram svona. Fólk er raunverulega að fara fram á að hún segi af sér, en hún hefur ekki gert það,“ sagði Kwak Bo-youn, ein mótmælendanna.

Fyrrverandi aðstoðarmaður Park, Choi Soon-sil, hefur verið ákærð fyrir að að hafa lagt á ráðin með forsetanum um að þrýsta á stórfyrirtæki til að fjármagna tvær stofnanir sem Choi stjórnar.

Park hefur í tvígang beðist afsökunar á málinu, en hefur ekki viljað segja af sér embætti. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar vinna nú að því að fá þing til að ákæra forsetann.

93% Suður-Kóreubúa eru nú ósáttir við forsetann, sem naut mikilla vinsælda er hún var kjörinn í embætti 2012. Vinsældanna naut hún ekki hvað síst vegna föður síns, sem fór með stjórn Suður-Kóreu í 18 ár, allt þar til hann var myrtur af yfirmanni leyniþjónustu landsins árið 1979.

93% íbúa Suður-Kóreu eru ósátt við forsetann og vilja að …
93% íbúa Suður-Kóreu eru ósátt við forsetann og vilja að hann segi af sér. Hundruð þúsunda tóku þátt í mótmælum í miðborg Seoul í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert