Beittu efnavopnum í Norður-Sýrlandi

AFP

22 sýrlenskir uppreisnarmenn urðu fyrir efnavopnaárás í norðurhluta Sýrlands, samkvæmt frétt frá tyrkneska hernum. Um er að ræða uppreisnarmenn sem Tyrkir styðja í baráttunni gegn vígasamtökunum Ríki íslams í Norður-Sýrlandi.

Ríki íslams skutu eldflaugum með eiturgasi á uppreisnarmennina og eru þeir þungt haldnir eftir árásina en gasið fór bæði í augu þeirra og húð.

Árásin var gerð á þorpið Khaliliya, austur af Al Rai í Norður-Sýrlandi. Tyrkneskir fjölmiðlar segja að Sýrlendingarnar sem urðu fyrir árásinni hafi verið fluttir yfir landamærin til Tyrklands þar sem þeir fá aðhlynningu á sjúkrahúsi í Kilis. 

Tyrkneska sjónvarpið hefur birtir myndir af flutningi Sýrlendinganna á börum á sjúkrahúsið þar sem sjúkraliðarnir eru allir klæddir sérstökum varnarbúningum og með gasgrímur. Tyrkneski herinn styður baráttu sýrlensku uppreisnarmennina gegn vígamönnum Ríkis íslams við landamærin.

Tyrkir hófu umfangsmikinn hernað gegn Ríki íslams og vopnuðum hópum Kúrda í Sýrlandi í september. Tyrkir hjálpuðu sýrlenskum uppreisnarmönnum að hrekja liðsmenn Ríkis íslams frá bænum Jarabulus, við landamærin að Tyrklandi, en þeir hafa einnig einsett sér að stöðva sókn Kúrda sem berjast gegn samtökunum. Eins hafa þeir náð Al Rai á sitt vald sem og bænum Dabiq. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert