Norska lögreglan skaut mann til bana

Frá Kristjansand.
Frá Kristjansand. Wikiepedia/Havstad112

Lögreglan í Kristjansand í Noregi skaut mann til bana í morgun en hún hafði veitt honum eftirför eftir að tilkynnt var að hann væri vopnaður á ferð. Lögreglan segir að byssumaðurinn hafi skotið á lögreglu og að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.

Samkvæmt upplýsingum  frá lögreglu barst tilkynning um manninn snemma í morgun og eftir að hafa veitt manninum eftirför skaut hann á lögreglu við bensínstöð í útjaðri Kristjansand. Lögreglan skaut til baka og hæfði manninn. Að sögn yfirlögregluþjóns í Agder, Per Kristian Klausen, var maðurinn á lífi þegar komið var með hann á sjúkrahús en þar lést hann skömmu síðar. Maðurinn var 35 ára og borinn og barnfæddur í Kristjansand. Hann hefur áður komist í kast við lögin, segir lögreglan í samtali við VG.

Næturvörðurinn á bensínstöðinni segir í samtali við VG að hann hafi verið við afgreiðsluborðið þegar hann heyrði háan hvell. Hann hafi kíkt út um gluggann og séð lögreglu skjóta á manninn sem var 30-40 metra frá. Honum hafi verið mjög brugðið og hlaupið inn á skrifstofu og falið sig.

Málið er í rannsókn en afar fátítt er að norska lögreglan skjóti einhvern til bana. Það gerðist síðast í september í fyrra þegar maður skaut og særði lögreglumann fyrir utan Hamar og var skotinn til bana af lögreglu í kjölfarið.

VG

NRK

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert