„Á leið til helvítis“

AFP

Sameinuðu þjóðirnar fordæma ástandið í Aleppo og segja að verið sé að senda almenna borgara hægt og rólega til helvítis. Rauði krossinn segir að tæplega 20 þúsund manns hafi flúið undan árásum stjórnarhersins í borginni undanfarna þrjá daga.

Neyðarfundur verður í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðar í dag í höfuðstöðvum SÞ í New York. Þar verður ástandið íAleppo til umræðu en herinn hefur náð þriðjungi þess svæðið sem áður var undir yfirráðum stjórnarandstæðinga á sitt vald. 

AFP

Skelfingu lostnir íbúar hafa flúið að heiman og margir hverjir hafa í ekkert hús að venda og eru allslausir á flóttanum. Margir þeirra hafa flúið til hverfa sem enn eru undir yfirráðum stjórnarandstæðinga en aðrir hafa flúið í hverfi sem eru undir yfirráðum stjórnarhersins eða Kúrda.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hafa um 20 þúsund manns flúið á síðustu 72 klukkustundum. Að sögn talsmanns Rauða krossins (ICRC), Krista Armstrong, segir að um áætlan fjölda sé að ræða og fjöldinn verði áfram á reiki þar sem fólk flýr í allar áttir. 

AFP

Austur-Aleppo hefur verið í herkví stjórnarhersins í meira en fjóra mánuði á sama tíma og matarbirgðir eru á þrotum og alþjóðleg neyðaraðstoð er af skornum skammti.

Talskona matvælaáætlunar SÞ, Bettina Luescher, segir að hægt og rólega sé verið að senda almenna borgara í átt að helvíti.

Sendiherra Frakka hjá SÞ, François Delattre, segir að Frakkar og félagar geti ekki lengur setið þögulir hjá á meðan fram fer eitt skelfilegasta þjóðarmorð síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hersveitir forseta Sýrlands hafa hvergi slakað á í árásum sínum á Austur-Aleppo undanfarnar tvær vikur og náð norðausturhluta Aleppo-borgar á sitt vald með stuðningi frá rússneska hernum.

AFP

Ef stjórnarandstæðingar missa austurhluta Aleppo úr höndum sér er það mesta áfall sem þeir hafa orðið fyrir síðan stríðið í Sýrlandi hófst fyrir meira en fimm árum.

Stjórnvöld í Moskvu segja að þau eigi ekki aðild að árásunum í Aleppo en rússneska varnarmálaráðuneytið segir að Sýrlandsher hafi náði tæplega helmingi þess svæðis sem var undir yfirráðum uppreisnarmanna í Austur-Aleppo.

„Aðgerðir sýrlenska hersins, sem eru vandlega skipulagðar og gerðar af alúð, hafa breytt ástandinu á róttækan hátt undanfarinn sólarhring,“ er haft eftir Igor Konashenkov herforingja.

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur falið ríkissstjórn sinni að setja upp færanleg sjúkrahús í kringum Aleppo, segir í tilkynningu frá stjórnvöldum í Rússlandi. Um er að ræða sjúkrahús sem á að geta tekið á móti allt að 250 sjúklingum á dag. 

Yfir 250 almennir borgarar hafa verið drepnir í árásum stjórnarhersins í Austur-Aleppo síðan 15. nóvember, þar á meðal um 30 börn, segja mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights.

Þau segja að minnsta kosti 10 borgarar hafi verið drepnir í loftárás á Bab al-Nayrab-hverfið í gær og að barist sé í nágrannahverfunum Shaar og Tariq al-Bab.

Fréttamaður AFP segir að fjölskyldur neyðist til þess að sofa á götum úti eða í tómum íbúðum sem áður hýstu fjölskyldur sem eru flúnar.

Amnesty International-samtökin hvetja sýrlensk stjórnvöld til þess að vernda íbúa sína í þeim hverfum sem herinn hefur náð á sitt vald. Fólk hafi þjáðst nóg.

Barnahjálp, Save the Children, varar við því að með árásunum sé oft verið að sundra fjölskyldum og þúsundir barna eru heimilislaus og í mikilli hættu.  Þegar svo margt fólk er saman komið á svæði sem sífellt skreppur saman eru börn lítið annað en sitjandi skotmörk sprengna.

Yfir 300 þúsund manns hafa verið drepnir síðan stríðið braust út í Sýrlandi í mars 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert