„Við þurfum að hafa hraðar hendur“

Það er byrjað að snjóa í Grikklandi.
Það er byrjað að snjóa í Grikklandi. AFP

Þúsundir flóttamanna og hælisleitanda hafa verið og verða færðar úr tjöldum inn undir þak í Grikklandi. Hitastig í landinu fór nýlega rétt niður fyrir frostmark í fyrsta skipti í vetur.

Aðgerðir hófust í gær í hlíðum fjallsins Olympus. Roland Schoenbauer, talsmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að færa þurfi til í það minnsta eitt þúsund meðlimi íraska minnihlutans Yazidi úr kuldanum í tjöldunum.

„Við þurfum að hafa hraðar hendur,“ sagði hann við AFP-fréttaveituna. Fjöldi fólks var færður á hótel í nágrenninu eða íbúðir í eigu flóttamannahjálparinnar.

Yfir 60 þúsund flóttamenn eru strandaglópar í Grikklandi eftir að lönd Evrópusambandsins og löndin á Balkanskaga hertu á landamæraeftirliti sínu á síðasta ári.

Flestir þeirra hafa sótt um hæli til að koma í veg fyrir að þeir verði fluttir aftur til Tyrklands, þaðan sem þeir komu til Grikklands. Fjöldi þeirra hefst við í tjöldum.

Í síðustu viku lést írösk kona og sex ára barnabarn hennar í tjaldi sínu í flóttamannabúðum á Lesbos-eyjunum eftir gassprengingu.

Innflytjendaráðherra Grikklands kennir auknum fjölda umsókna og tregðu Evrópusambandsins um ástandið. „Það eru 13 þúsund hælisleitendur að sækja um á grísku eyjunum og 50 þúsund aðrir á meginlandinu. Okkur var lofað 400 starfsmönnum frá Evrópusambandinu en höfum eingöngu 36 þeirra,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert