38 látnir – 166 særðir

Bílsprengja sprakk fyrir utan leikvanginn seint í gærkvöldi.
Bílsprengja sprakk fyrir utan leikvanginn seint í gærkvöldi. AFP

Sprengjurnar tvær sem sprungu fyrir utan íþróttaleikvang í Istanbúl í Tyrklandi í gærkvöldi urðu að minnsta kosti 38 að bana. Talið er að 166 séu særðir.

Önnur sprengjan var bílsprengja en hin var sjálfsmorðssprengja. Þeim var báðum beint að lögreglumönnum. Meðal hinna látnu eru þrjátíu lögreglumenn.

Sprengjurnar sprungu tveimur klukkustundum eftir leik tveggja helstu knattspyrnuliða borgarinnar, Besiktas og Bursaspor, á heimavelli þess fyrrnefnda. 

Í kjölfarið hafa tíu manns verið handteknir. Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Tyrklandi síðustu mánuði. Skæruliðahreyfing Kúrda og Ríki íslams hafa sagst bera ábyrgð á þeim flestum.

Enn hefur enginn hópur lýst ódæðinu á hendur sér. 

„Hryðjuverkaárás hefur verið gerð á öryggissveitir okkar og borgara,“ sagði Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti í nótt. 

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert